Hvað vakir fyrir Hegseth? „Foringjaeiður“ í uppsiglingu vestanhafs?

Stríðs­ráð­herra Banda­ríkj­anna hef­ur boð­að stór­an hóp æðstu her­for­ingja lands­ins á mjög óvenju­leg­an fund. Hér seg­ir frá fundi verð­andi for­ingja Þýska­lands og stríðs­ráð­herra síns snemma í ág­úst 1934.

Hvað vakir fyrir Hegseth? „Foringjaeiður“ í uppsiglingu vestanhafs?
Hermenn sverja eiðinn í ágúst 1934.

Hegseth stríðsráðherra Bandaríkjanna hefur boðað alla æðstu herforingja bandaríska hersins – allra deilda hans — til fundar í næstu viku. Fundurinn á sér ekki fordæmi og sumir þeir sem tortryggnir eru í garð Trump-stjórnarinnar óttast að þar verði gerð tilraun til að knýja í gegn einhvers konar stuðningsyfirlýsingu og jafnvel eið herforingjanna við Donald Trump persónulega.

Og þá er gjarnan vísað til þess þegar þýskir hermenn voru látnir sverja Adolf Hitler persónulegan hollustueið aðeins ári eftir að hann hafði náð völdum í Þýskalandi.

Þingið tekið úr sambandi

Hitler varð kanslari Þýskalands – Reichskanzler – eða forsætisráðherra í lok janúar 1933. Hann stýrði þá samsteypustjórn nasistaflokksins, Þýska þjóðernisflokksins og nokkurra íhaldsmanna á þingi. Einn þeirra var Franz von Papen fyrrverandi kanslari sem sannfærði hinn aldraða forseta, Paul von Hindenburg, um að gera Hitler að kanslara því Papen var sannfærður um að hann gæti haft stjórn á nasistaflokknum.

Það fór á annan veg því Hitler gekk strax til þess verks að tryggja sér og flokki sínum öll völd í ríkinu og það reyndist því miður fáránlega auðvelt.

Eftir aðeins örfáa mánuði höfðu nasistar tekið þingið úr sambandi, sett íhaldsöflin til hliðar og handtekið bæði jafnaðarmenn og kommúnista. Næstu mánuði fóru þeir svo að herða tökin á samfélaginu æ fastar og brjóta undir sig sífellt fleiri stofnanir.

Gremja í garð stormsveitanna

Þegar kom fram á sumarið 1934 var einkum tvennt á döfinni hjá Hitler.

Í fyrsta lagi voru SA-sveitirnar orðnar til vandræða. Þær höfðu verið afar fyrirferðarmiklar síðasta áratuginn og flestir litu á SA-mennina sem holdgervinga stefnu nasista.

Þegar þarna var komið sögu var raunin hins vegar nokkuð önnur.

Hitler mun hafa orðið „snortinn“ þegar hann heyrði uppástungu Blombergs um hinn persónulega eið hermanna.Hann hefur sennilega oft varla trúað því sjálfur hve auðvelt var fyrir hann að beygja stofnanir ríkisins undir vilja hans.

Innan SA voru ýmis öfl sem voru ekkert endilega ánægð með framgang mála síðan nasistar tóku völdin. Ástæður þess voru ýmsar og flóknar og best að láta þær að mestu liggja milli hluta.

En meðal þeirra helstu var að sumir gamlir vopnabræður Hitlers, ekki síst Ernst Röhm yfirforingi SA, vildu mun róttækari umbyltingu samfélagsins nú þegar flokkurinn hafði náð völdum heldur en Hitler sá ástæðu til að standa fyrir.

Nótt hinna löngu hnífa

Í öðru lagi leit þýski herinn enn svo á að honum bæri að vera algjörlega hlutlaus í pólitískum deilum. Hermenn sóru eið að þýsku stjórnarskránni og flestir yfirforingjar hersins tóku þann eið hátíðlega og höfðu gætt sín á því að skipa sér hvergi í lið í sviptingum síðustu ára — þótt vissulega færi ekki milli mála að þeir voru upp til hópa stækir íhaldsmenn og afar litlir lýðræðissinnar.

Ernst Röhm.Herforingjar þýska hersins vildu allt til vinna að losna við hann.

Mesta áhugamál herforingjanna var raunar að stemma stigu við uppgangi SA-sveitanna.

Röhm og hans vildu að Hitler styrkti SA á kostnað hersins og að stormsveitirnar tækju í raun yfir hlutverk þýska hersins fyrr en síðar.

Um mánaðamótin júní-júní 1934 lét Hitler skyndilega og óvænt til skarar skríða gegn þeim sem hann leit á sem andstæðinga sína innan nasistahreyfingarinnar og SA. Nálægt 150 manns voru drepnir á „nótt hinna löngu hnífa“ og var Röhm þar á meðal.

Augljóst var með þessu að Hitler hafði gefið SA-sveitirnar upp á bátinn við mikla ánægju hersins.

Stígið í vænginn við herforingjana

Enda hafði hinn nýi kanslari gert í því að stíga í vænginn við herforingjana, auk þess sem hann hafði þegar hafist handa um að stækka og efla herinn með mjög aukinni vígvæðingu.

Sem hljómaði náttúrlega eins og ljúf músík í eyrum herforingjanna.

Eða öllu heldur eins og hressilegt prússneskt hergöngulag.

Hindenburg og Hitler.Persónulega fyrirleit gamli hershöfðinginn Hitler. En hann steig aldrei raunveruleg skref til að kveða hann í kútinn. Og loks var það of seint.

Svo gerðist það í lok júlí að Hindenburg forseti lagðist banaleguna.

Hitler og félagar gripu þá gæs fegins hendi og þann 1. ágúst tilkynnti Hitler yfirmanni hersins og stríðsráðherra sínum Werner von Blomberg að hann hefði ákveðið að við lát Hindenbergs yrði ekki efnt til forsetakosninga svo sem lög gerðu ráð fyrir. Þess í stað yrðu sett ný lög um að embætti forseta og kanslara skyldu sameinuð í eitt og hann tæki sjálfur við hinu nýja starfi.

Til að rjúfa endanlega tengslin við hina lýðræðislegu stjórnarskrá Weimar-lýðveldisins var embættisheitið „forseti“ lagt niður og hið nýja starf Hitlers kallað „Führer und Reichskanzler“ – foringi og ríkiskanslari.

Því var Hitler upp frá þessu kallaður foringi Þýskalands, það var einfaldlega embættisheiti hans.

Frumkvæði Blombergs

Blomberg gerði engar athugasemdir við þetta. Hann var ekki nasisti að hugmyndafræði heldur fyrst og fremst íhaldssamur herforingi á prússneska vísu og trúði á aga, þjóðernisbelging og skipulag.

Nú þegar Hitler hafði gert hernum þann greiða að kveða SA-sveitirnar í kútinn og yrði nú sem foringi æðsti yfirmaður hersins (líkt og Hindenburg forseti hafði verið) þá vildi Blomberg binda trúnað Hitlers við herinn enn fastar en áður. 

Hann stakk því upp á að nafn Hitlers sem foringja yrði tekið upp í þann eið sem hermenn sóru. Eftir því sem best er vitað vissi Hitler ekki um það fyrirfram að Blomberg ætlaði að stinga upp á þessu en hann var fljótur að samþykkja.

Raunar sagði hann Blomberg að slíkur persónulegur eiður væri frábær leið fyrir herinn til að „sýna þakklæti sitt“.

Því það á Hitler sameiginlegt með mörgum stjórnlyndisofstopamönnum, bæði fyrr og síðar, að honum fannst að allir ættu ævinlega og alltaf að vera sér „þakklátir“. 

Dauði Hindenburgs

Daginn eftir dó Hindenberg og allt gekk fram sem nasistar óskuðu. 

Hitler tók nú við sem foringi og upp frá þessu sóru hermenn honum persónulegan trúnaðareið.

Það var reyndar í annað sinn sem eiðnum hafði verið breytt síðan nasistar komust til valda.

Upphaflegur eiður frá stofnun Weimar-lýðveldisins var svona:

„Ich schwöre Treue der Reichsverfassung und gelobe, daß ich als tapferer Soldat das Deutsche Reich und seine gesetzmäßigen Einrichtungen jederzeit schützen, dem Reichspräsidenten und meinen Vorgesetzten Gehorsam leisten will.“

Þetta þýddi:

„Ég sver að vera tryggur stjórnarskrá ríkisins og sem hugrakkur hermaður mun ég ætíð leitast við að verja þýska ríkið og löglegar stofnanir þess og vera trúr ríkisforsetanum og yfirmönnum mínum.“

„Þjóð og föðurland“

Í desember 1933 hafði þessum eiði verið breytt enda löngu orðið ljóst sú stjórnarskrá sem eiðurinn átti við var að engu höfð í hinu nýja Þýskalandi nasismans. Frá desember 1933 til ágúst 1934 fóru þýskir hermenn því með þessa þulu þegar þeir voru formlega skráðir í herinn:

„Ich schwöre bei Gott diesen heiligen Eid, daß ich meinem Volk und Vaterland allzeit treu und redlich dienen und als tapferer und gehorsamer Soldat bereit sein will, jederzeit für diesen Eid mein Leben einzusetzen.“

Þetta þýddi svo mikið sem:

„Ég sver við guðs nafn þann helga eið að ég mun ævinlega af tryggð og sannfæringu þjóna þjóð minni og föðurlandi og vera sem hugrakkur og hlýðinn hermaður hvenær sem er tilbúinn til að hætta lífi mínu fyrir þennan eið.“

Margir þóttust vera veikir

En í ágúst 1934 varð eiðurinn sem sagt svona vegna „þakklætis“ Blombergs:

„Ich schwöre bei Gott diesem Führer des Deutschen Reiches und Volkes Adolf Hitler Treue und Tapferkeit. Ich gelobe, dem Führer Adolf Hitler unbedingten Gehorsam zu leisten und als tapferer Soldat bereit zu sein, für diesen Eid mein Leben einzusetzen. So wahr mir Gott helfe.“

Blomberg.Uppástunga hans um eiðinn dugði honum lítt persónulega. Árið 1938 vildi Hitler fá enn tryggari stríðsráðherra og yfirmann hersins til að hjálpa sér að heyja það stríð sem hann hafði þá ákveðið. Þá neyddi hann Blomberg til að segja af sér og var það tilefni notað að Blomberg hafði nýlega kvænst ungri konu sem þótti eiga sér full léttúðuga fortíð.

Og þetta þýðir:

„Ég sver að vera leiðtoga hins þýska ríkis og þjóðar Adolf Hitler tryggur og hraustur hermaður. Ég heiti því að hlýða foringjanum Adolf Hitler skilyrðislaust og vera sem hugrakkur hermaður tilbúinn að fórna lífi mínu fyrir þennan eið. Svo hjálpi mér Guð.“

Mörg þúsund hermenn í þýska hernum þóttust vera veikir þegar boðað var til þess nokkrum dögum eftir valdatöku Hitlers sem foringja að allir skyldu sverja hinn nýja eið.

En herinn gekk raunar mjög fast eftir því að þegar menn sneru til baka eftir „veikindin“ þá færu þeir með svardagann, hvað sem tautaði og raulaði.

Og var þetta kallað „foringjaeiðurinn“ upp frá því. 

Þægur seppi

Í mars árið eftir var svo skipulagi þýska hersins breytt og tekin af öll tvímæli um að Adolf Hitler væri persónulegur yfirmaður hans.

Þá var eiðnum enn breytt og hljóðaði eftir það svo:

„Ég sver við guð þann heilaga eið að ég muni sýna foringja þýska ríkisins og þjóðarinnar, Adolf Hitler, æðsta yfirmanni hersins, skilyrðislausa hlýðni og að ég muni, sem hugrakkur hermaður, ávallt vera reiðubúinn að fórna lífi mínu fyrir þennan eið.“

Mjög svipaður eiður var svo tekinn upp hjá hinu opinbera í Þýskalandi. Þar urðu eftirleiðis allir embættismenn að sverja Hitler persónulegan trúnaðareið.

Blomberg hershöfðingi var ekki mjög vel gefinn maður. Hann var að minnsta kosti mjög glámskyggn þegar hann ímyndaði sér að hinn persónulegi eiður hermanna við nafn Hitlers myndi hnýta foringjann við herinn.

Þvert á móti varð þetta – eins og augljóst átti að vera frá upphafi – til þess að þýski herinn var upp frá þessu þægur seppi foringjans.

Og framkvæmdi öll þau óhæfuverk sem Hitler átti eftir að skipa honum að gera.

 

Kjósa
4
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Árásin á Bastilluna: Franska byltingin hófst með því að geðveikir kynferðisglæpamenn og falsarar voru frelsaðir
Flækjusagan

Árás­in á Bastill­una: Franska bylt­ing­in hófst með því að geð­veik­ir kyn­ferð­is­glæpa­menn og fals­ar­ar voru frels­að­ir

Í dag, 14. júlí, er Bastillu­dag­ur­inn svo­kall­aði í Frakklandi og er þá æv­in­lega mik­ið um dýrð­ir. Dag­ur­inn er yf­ir­leitt tal­inn marka upp­haf frönsku bylt­ing­ar­inn­ar ár­ið 1789 þeg­ar feyskinni ein­valds­stjórn Bour­bon-ætt­ar­inn­ar sem hrund­ið frá völd­um. Bylt­ing­in var gerð í nokkr­um áföng­um en vel má segja að eft­ir 14. júlí hafi ekki ver­ið aft­ur snú­ið. Basill­an var virki í Par­ís­ar­borg sem hýsti...

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Brotthvarf að meðaltali hærra úr íslenskum háskólum en í OECD-ríkjum
4
Fréttir

Brott­hvarf að með­al­tali hærra úr ís­lensk­um há­skól­um en í OECD-ríkj­um

Nið­ur­stöð­ur nýrr­ar skýrslu OECD um há­skóla­mál sýna að brott­hvarf er hærra á Ís­landi en að með­al­tali í OECD-ríkj­um. Þá seg­ir að tryggja þurfi að ís­lensk­ir há­skól­ar standi jafn­fæt­is öðr­um OECD há­skól­um. „Þess­ar nið­ur­stöð­ur stað­festa að há­skóla­mál­in þurfa að njóta sér­stakr­ar at­hygli,“ seg­ir Logi Ein­ars­son menn­ing­ar-, ný­sköp­un­ar- og há­skóla­ráð­herra.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár