Jóhann Páll Jóhannsson, oddviti Samfylkingar í Reykjavík suður og fyrsti þingmaður kjördæmisins er gríðarlega ánægður með stöðuna miðað við þau atkvæði sem talin hafa verið. Flokkurinn er stærstur á landsvísu eins og staðan er, og bætir við sig tíu prósentustigum í kjördæminu.
„Mér líður hrikalega vel,“ sagði Jóhann Páll í samtali við blaðmann Heimildarinnar á kosningavöku Samfylkingarinnar sem haldin er í Kolaportinu. „Þetta lítur vel út, enn sem komið er að minnsta kosti,“ segir hann.
Atkvæðin sem Samfylkingin er að fá upp úr kjörkössunum er honum gleðiefni. Hann segist þó hafa verið hæfilega bjartsýnn og ekki alveg vitað fyrirfram við hverju hann ætti að búast, þrátt fyrir gott gengi í skoðanakönnunum.
Er þetta betra en þú þorðir að vona?
„Að einhverju leyti, kannski. Mér finnst við svolítið að vera að uppskera eftir vinnu síðustu ára,“ sagði hann en þorði ekki að spá fyrir um hvort þetta myndi haldast eftir því sem meira yrði talið af atkvæðum: „Ég þori ekki að spá neinu. Ég vil ekki jinxa,“ segir hann og vill því ekki storka örlögunum.
Jóhann Páll þakkar árangurinn í kjördæminu ekki síst því fólki sem leiðir listann. „Þetta er svo öflugt fólk sem við erum með. Við erum með Rögnu Sigurðardóttur lækni, Kristján Þórð iðnaðarmann og formann Rafiðanarsambandsins, og Sigurþóru Bergs sem hefur byggt upp Bergið Headspace sem hefur hjálpað þúsundum ungmenna. Þetta er eðalfólk og ég er ekki hissa á að þessi listi hljóti góðan hljómgrunn.“
Athugasemdir