Ólíkt forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands hefur forsetinn, Halla Tómasdóttir, enn ekki sent Donald Trump heillaóskir eftir að hann fór með sigur af hólmi í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Samkvæmt upplýsingum frá forsetaembættinu hyggst hún bíða með hamingjuóskir fram á næsta ár.
Viðbrögð Höllu við kjöri Trumps eru frávik frá viðbrögðum forvera hennar, Guðna Th. Jóhannessonar, sem óskaði Donald Trump til hamingju með kjör hans strax 9. nóvember 2016, daginn eftir að hann var kosinn forseti fyrra sinnið.
„Forseti Íslands mun senda verðandi forseta Bandaríkjanna heillaóskir í bréfformi fyrir hönd íslensku þjóðarinnar þegar hann verður formlega settur inn í embætti í janúar,“ segir í svari frá skrifstofu forseta Íslands við fyrirspurn Heimildarinnar. Þar kemur einnig fram að forsetinn hafi ekki átt nein samskipti „við Donald Trump í tengslum við kjör hans“. Trump verður settur inn sem forseti 20. janúar næstkomandi.
Bæði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra þegar óskað Trump til hamingju, eins og margir þjóðarleiðtogar, og lýst yfir tilhlökkun yfir samstarfi með honum og stjórn hans. „Bandaríkin eru sterkasta bandalagsríki Íslands og stærsta einstaka viðskiptaland. Ég hlakka til að vinna með Trump-stjórninni að því að þróa lengra okkar langvarandi samband sem vina og bandamanna,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á X.
Í heillaóskum sínum við fyrra kjör Trumps notaði Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi forseti, tækifærið til að minna Trump á gildismat þjóðanna. „Enda þótt Bandaríkin væru eitt stærsta lýðræðisríki veraldar en Ísland eitt hið minnsta deildu þjóðirnar mörgum mikilvægum gildum; við styðjum einhuga frelsi til hugsana og tjáningar, jafnrétti kynjanna og höfum í hávegum jafnan rétt allra þegna óháð litarhafti eða trú,“ sagði hann.
Aðeins eru tíu dagar frá því að Halla tók á móti Volodymyr Selenskí Úkraínuforseta á Bessastöðum, en Donald Trump hefur boðað fráhvarf frá stuðningi við Úkraínu, lýst Selenskí sem „mesta sölumanni heims“, státað af góðu sambandi við Vladimir Pútín Rússlandsforseta og boðað að hann geti endað Úkraínustríðið á einum sólarhring, sem er að líkindum eingöngu mögulegt með mikilli eftirgjöf við Rússa, einna helst á landsvæðum Úkraínu.
Halla hefur búið í Bandaríkjunum stóran hluta ævinna. Bæði var hún skiptinemi í bandarískum menntaskóla og svo starfaði hún fyrir stórfyrirtækin Mars og Pepsi Cola eftir útskrift úr MBA-námi á 10. áratugnum.
Athugasemdir (1)