„Fyrsta upplifun mín sem íbúa í einum af fyrstu húsunum sem mun fara undir hraun eru lamandi þyngsli og sorg.“ Þetta segir Kristín Linda Jónsdóttir, sálfræðingur sem býr í Grindavík, í samtali við Heimildina í morgun.
„Nú verðum við sem búum í Grindavík í reyna af öllu okkar sálarþreki að hugsa um að við erum ekki í lífshættu og náðum að taka helstu nauðsynjar á síðustu vikum. Það er mikil sorg að sjá fram á í alvöru að missa heimili sitt og innbú og framundan krefjandi verkefni og óvissa.“
Kristín Linda segir að það ríði mikið á að ríkisstjórnin standi sig með að knýja á um að íbúar bæjarins fái sem fyrst úrlausn sinna mála svo fólk geti séð fyrir sér að komast í varanlegt skjól innan of langs tíma. „Ég var búin að fá son minn til að fara með mér í dag til að sækja eigur okkar í eldhúsinu, potta, pönnur, diska, glös, hrærivél, hnífapör og bara allt sem er í eldhúsinu hjá okkur, það er of seint. Nú er svo margt of seint.“
Kristín Linda, sem hefur verið búsett í Grindavík í um tvö ár, ræddi við Heimildina í nóvember, áður en gos hófust við Grindavík, vegna þeirra miklu skjálfta sem höfðu verið á svæðinu.
Þá sagði hún að það sem væri í gangi væri „utanaðkomandi ógn sem enginn mannlegur máttur getur stöðvað og algjörlega ófyrirsjáanleg, þó að jarðfræðingarnir okkar séu sannarlega að reyna sitt besta, þá veltir fólk mörgu fyrir sér. Þeir sem vinna í Keflavík eða Reykjavík velta því fyrir sér hvort þau geti sótt börnin sín, sem eru hér í leikskóla eða skóla. Hvað ef ég er að keyra eftir Grindavíkurvegi og það er allt í einu farið að gjósa fyrir framan mig og ég get ekki snúið við út af handriðum á Grindavíkurvegi? Það eru svona spurningar sem íbúar velta fyrir sér, þó að sjálfsögðu haldi flestir ró sinni. Það er ekki eins og við séum eins og litlir krakkar, hrædd við köngulær, en við gerum okkur grein fyrir að það er mikil vá sem getur birst hérna.“
Athugasemdir (1)