„Íslensk stjórnvöld lýsa almennt ekki yfir stuðningi við einstök mál eða kærur fyrir alþjóðadómstólum nema eiga aðild að máli.“ Þetta segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Heimildarinnar um hvort utanríkisráðherra styðji kæruna sem Suður-Afríku hefur höfðað gegn Ísrael.
Sama fyrirspurn var send á forsætisráðuneytið. Í svari þess er vísað til svars utanríkisráðuneytisins um stefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart kærunni. Af því má draga þá ályktun að forsætisráðuneytið taki sömuleiðis ekki afstöðu gagnvart kærunni gegn Ísrael.
Suður-Afríka lagði í lok desember fram kæru gegn Ísraelsríki fyrir Alþjóðadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag. Er það vegna meints þjóðarmorðs Ísraels á palestínskum íbúum Gasasvæðisins. Málsmeðferð mun hefjast á morgun, 11. janúar.
Þó nokkur ríki hafa stutt kæru Suður-Afríku, s.s. Jórdanía, Maldíveyjar, Namibía, Pakistan og Bólivía. Íslenskir aðgerðarsinnar hvöttu Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra til að taka undir kæruna í ráðherrabústaðnum í gær.
Athugasemdir (1)