Sveitarstjórinn í bæ einum í norðurhluta Ísraels vill að Gasa-svæðið verði „flatt alveg út eins og Auschwitz núna“ og allir íbúarnir verði fluttir með valdi í flóttamannabúðir í Líbanon.
Maðurinn heitir David Azoulay og býr í bænum Metula við landamæri Ísraels að bæði Líbanon og Sýrlandi. Þar búa tæplega 2.000 manns. Azoulay var í viðtali við ísraelsku útvarpsstöðina Radio 103FM. Ísraelska blaðið Haaretz vitnaði til ummæla Azoulay og fleiri „umdeilanlegra“ ummæla ísraelskra ráðamanna um hernaðinn á Gasa.
Ljóst má vera að þótt allir Ísraelar séu sameinaðir í sorg sinni og reiði vegna hryðjuverka Hamas 7. október er sumum þeirra farið að blöskra af hve mikilli heift stríðið á Gasa er rekið. Það er að minnsta kosti augljóst að Haaretz vitnar ekki til ummæla Azoulys vegna velþóknunar blaðsins með sjónarmiðum hans.
Azouly tók fram í útvarpsviðtalinu að hann væri ekki langt til hægri í stjórnmálum. Eigi að síður þætti honum rétt að öllum íbúum á Gasa yrði smalað niður á strönd og þeir fluttir með valdi um borð í skip sem síðan sigldu með þá norður til Líbanons. Þar yrðu þeir settir á land enda væri þar „nóg af flóttamannabúðum“.
Þegar Azouly var svo spurður hvað ætti að gera við Gasa-svæðið sagði hann að skilja ætti það eftir „tómt, alveg eins og Auschwitz. Safn. Svo allur heimurinn sjái hvað Ísraelsríki getur gert.“
Breyta ætti Gasa-svæðinu í risastórt einskismannsland á mótum Ísraels og Egiftalands — „allt frá sjónum alveg að landamæramúrunum, alveg tómt, svo fólk gleymi því aldrei hvað var einu sinni þarna.“
Og hann ítrekaði fyrri orð sín: „Fletjið allt út, alveg eins og í Auschwitz.“
Þegar Azouly var svo spurður hvort hann teldi líklegt að líbönsk yfirvöld og palestínsku samtökin Hezbollah, sem eru ríki í ríkinu í suðurhluta Líbanons, myndu leyfa Ísraelum að flytja þangað norður milljónir Palestínumanna frá Gasa, þá svaraði hann:
„Hezbollah sér hvað er að gerast í suðrinu [í Gasa] og meðan við ljúkum ekki verkinu þar — þá meina ég að fletja Gasa-svæðið alveg út — þá mun Hezbollah segja: „Ísraelsmenn eru heimskir og hægt að hafa hemil á þeim.““
Og Azouly bætti við: „Ég skil ekki af hverju Ísrael getur ekki afgreitt hryðjuverkasamtök, þótt öflug séu. Ríkið er eitthvað hrætt við að reka fólk frá heimilum sínum.“
Haaretz vitnar svo í nokkra aðra ísraelska ráðamenn sem lagt hafa til mikla hörku í stríðinu við Hamas á Gasa.
Í grein í Jerusalem Post nýlega sagði Gila Gamaliel njósnamálaráðherra að vestræn ríki ættu að „taka við“ Palestínumönnum af Gasa-svæðinu „af mannúðarástæðum“ rétt eins og kvikfénað væri að ræða en ekki þjóð í eigin heimkynnum.
Og Avi Dichter landbúnaðarráðherra Ísraels sagði nýlega að Ísrael væri nú að framkvæma „Naqba á Gasa“ en þar er vísað til atburðanna 1948 þegar Ísraelsríki var stofnað og palestínskir íbúar voru hraktir frá fjölda þorpa og byggða til að rýma fyrir Gyðingum þeim sem vildu setjast að í hinu nýja Ísrael.
Orðið „Naqba“ hefur hingað til aðeins verið notað af Palestínumönnum um þá atburði en það þýðir „hörmungarnar“. Ísraelar sjálfir hafa fullyrt að Palestínumenn hafi flúið sjálfviljugir eða að hvatningu hinna arabísku nágrannaríkja. Í því sambandi má benda á heimildarmynd sem ísraelski kvikmyndagerðarmaðurinn Alon Schwarz frumsýndi í fyrra. Hún fjallar um Naqba í einu litlu þorpi í norðurhluta Ísraels 1948, Tantura, og hrekur hina opinberu lygi Ísraelsmanna mjög skilmerkilega.
Myndin er á Youtube og má horfa á hana þar.
Haaretz vitnar svo að lokum til orða Amichai Eliyahu, ráðherra Jerúsalem í ísraelsku stjórninni, en hann sagði í útvarpsviðtali að vel kæmi til mála að varpa kjarnorkusprengju á Gasa því allir íbúar þar væru í raun stríðsmenn, jafnt börn sem fullorðnir.
Það verða ,,falleg jólin" í Ísrael þetta árið ?