„Nýjustu gögn sem Veðurstofan sýndi okkur sýna talsverða færslu og stóran kvikugang sem er að myndast og gæti opnast og legið frá suðvestri til norðausturs,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, á fundi Almannavarna rétt í þessu, þar sem hann lýsti því að íbúum væri skylt að yfirgefa Grindavík á tveimur til þremur tímum vegna kvikugangs sem virðist vera að teygja sig undir bæinn.
Á síðasta sólarhring hafa mælst 3.000 skjálftar og þar af 11 skjálftar yfir 4 að stærð, sá stærsti 5. Kvikan nú er mun meiri en mældist undir Fagradalsfjalli. „Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum frá Veðurstofunni er það já, þarna er á ferðinni mjög mikil kvika og það jarðhnik sem menn hafa séð í dag og í kvöld er meira heldur en við höfum séð áður.“
Hann segist ekki vita hversu ofarlega kvikugangurinn er kominn. „Nei ekki nákvæmlega, nei.“
Spurður hvort sviðsmyndin væri svartari en hann gerði ráð fyrir í morgun eða í gær, sagði Víðir alltaf hafa verið gert ráð fyrir því að nægur tími gæfist til að rýma.
„Við höfum auðvitað verið allan tímann með þessar sviðsmyndir í gangi að gos gæti komið upp á þessum stað. Við höfum reiknað með að hafa tíma til að rýma Grindavík ef til þess kæmi og það er það sem við erum að gera núna. Þannig að það er ekkert ennþá sem hefur verið fyrir utan þær sviðsmyndir og áætlanir sem við höfum unnið.“
Víðir brýndi fyrir fólki að fara varlega í rýmingunni.
„Ákvörðun þessi er tekin með öryggi íbúanna í huga. Mikilvægt er að allir sýni stillingu því við höfum ágætan tíma til að bregðast við. Ég ítreka það að þetta er ekki neyðarrýming. Það er beiðni mín til íbúa Grindavíkur að yfirgefa bæinn án óðagots. Það er ekki bráð hætta yfirvofandi og rýmingin er fyrst og fremst fyrirbyggjandi öryggisráðstöfun með ykkar öryggi í huga,“ sagði hann. „Akið varlega. Það er dimmt og margir verða á ferðinni. Förum okkur að engu óðslega. Samkvæmt rýmingaráætlun Grindavíkur er nauðsynlegt að allir fjölskyldumeðlimir séu upplýstir um áætlun fjölskyldunnar. Neyðarlínan mun núna á eftir senda SMS en það er ekki víst að allir fái það, þannig að þið þurfi að hlúa að hvort öðru og athuga með ykkar nágranna.“
Víðir veitti jafnframt íbúum leiðbeiningar um hvernig ganga ætti frá heimilunum við rýminguna.
„Þegar þið yfirgefið heimilið skulið þið loka gluggum og aftengja rafmagnstæki og hafa með ykkur þær nauðsynjar sem þið þurfið, eins og lyf og annað. Þeir sem reikna með að þurfa að gista í fjöldahjálparstöð í nótt ættu að taka með sér sæng og kodda. Setjið miða á áberandi stað í glugga eða hurð, sem snýr út að götu, sem sýnir að húsið hafi verið rýmt. Hugið að nágrönnum ykkar og samstarfsfólki ef hægt er. Akið varlega innanbæjar og eftir að komið er út úr bænum. Takið upp gangandi fólk ef rými er í bílnum. Hlustið á útvarpið og fylgist með fjölmiðlum.
Söfnunarmiðstöð Grindavíkur er í íþróttarmiðstöðinni. Ef þið þurfið á aðstoð að halda eða ef slys verða hringið í 112. Ekki er nauðsynlegt að koma við á söfnunarmiðstöðinni í Grindavík við rýmingu. Við minnum líka á hjálparsíma Rauða krossins 1717. Við ítrekum að þessi ákvörðun er þannig að öllum íbúum er skylt að rýma húsin og yfirgefa bæinn.“
Víðir sagði um sögulegan atburð að ræða.
„Þó að við höfum rýmt af ýmsum ástæðum eins og aurflóðin á Seyðisfirði og annað slíkt þá held ég að þetta sé svona mjög sögulegur atburður. En eins og ég segi, við höfum samt þessa þekkingu og reynslu sem við höfum byggt í kringum hamfarir í gegnum tíðina og þess vegna getum við tekist á við þetta af æðruleysi og bara eftir því skipulagi sem við höfum unnið.“
Ísleningar hefðu ekki upplifað viðlíka atburð frá því í Vestmannaeyjagosinu árið 1973.
„Það er ljóst að við erum að fást við atburði sem við Íslendingar höfum ekki upplifað síðan gaus í Vestmannaeyjum. Við tókumst á við það saman og við munum takast á við þetta saman og látum ekki hugfallast. Gangi ykkur vel og farið þið varlega.“
Athugasemdir