Íslenska útgerðarfélagið Samherji á Akureyri birtir upplýsingar úr ársreikningum félags sem útgerðin á ekki og er ekki hluti af samstæðu þess. Upplýsingarnar eru birtar á heimasíðu íslenska útgerðarfélagsins. Ársreikningarnir sem upplýsingarnar eru birtar upp úr eru fyrir árin 2019 og 2020.
Um er að ræða félagið Samherja Holding ehf. sem heldur utan um erlendan útgerðarrekstur sem áður var hluti af Samherjasamstæðunni, meðal annars rekstur á Kýpur, í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Englandi og Afríku. Félagið á einnig hluti í Eimskipafélagi Íslands. Rekstri Samherja á Íslandi og rekstri Samherja erlendis var skipt upp í tvennt árið 2018. Samherji Holding hagnaðist um 4,3 milljarða króna í fyrra.
Þessara reikninga hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu þar sem skila hefði átt ársreikningi Samherja Holding fyrir árið 2019 í síðasta lagi ágúst í fyrra og reikningum fyrir árið 2020 í ágúst á þessu ári.
Í fyrra gerðist það svo að börn eigenda stofnenda Samherja, þeirra Þorsteins Más Baldvinssonar og Kristjáns Vilhelmssonar, eignuðust innlendan hluta Samherja, og reksturinn í Færeyjum, á meðan foreldrar þeirra eiga áfram þann rekstur sem er inni í Samherja Holding ehf. Þetta var gert með sölu á hlutabréfum í Samherja á Íslandi til barna þeirra Þorsteins Más og Kristjáns. Viðskiptin með hlutabréfin vöktu mikla athygli vorið 2020. Meðal þess sem skipti um hendur í viðskiptunum var umráðaréttur, meðal annars sölu- og veðsetningaréttur, á fiskveiðikvóta Samherja á Íslandi.
„Eins og ársreikningarnir sýna er Samherji Holding ehf. sterkt félag með mikla möguleika til framtíðar litið.“
Reksturinn og eignarhaldið aðskilinn
Eftir þetta er bæði innlendur og erlendur rekstur sem áður var hluti af Samherjasamstæðunni aðskilinn, sem og eignarhaldið á þessum tveimur rekstrareiningum. Þrátt fyrir þetta er það útgerðarfélagið Samherji á Íslandi sem birtir tilkynningu um rekstur Samherja Holding ehf. fyrir árin 2019 og 2020 en íslenska félagið á í dag ekki nema 0,1 prósent af hlutafé þessa félags.
Þorsteinn Már Baldvinsson er hins vegar forstjóri beggja félaganna og birtir Samherji tilvitnun í forstjórann á heimasíðu sinni þar sem hann segist líta björtum augum til framtíðar. „Eins og ársreikningarnir sýna er Samherji Holding ehf. sterkt félag með mikla möguleika til framtíðar litið. Efnahags- og lausafjárstaðan er góð og sú vinna sem ráðist hefur verið í á undanförnum mánuðum mun skila árangri. Þrátt fyrir áföll í rekstrinum er ég bjartsýnn á framtíðina því hjá okkur starfar gott fólk. Samherji Holding er alþjóðlegt sjávarútvegsfyrirtæki með starfsemi víða um heim. Íslendingar eiga að vera ófeimnir við að taka þátt í atvinnurekstri erlendis. Við eigum að nýta hátt menntunarstig, þekkingu okkar og reynslu í fyrirtækjarekstri á erlendum vettvangi.“
Af hverju Samherji velur að birta þessar upplýsingar um rekstur Samherja Holding ehf. á heimasíðu sinni, þegar fyrir liggur að félögin tilheyra ekki sömu fyrirtækjasamstæðu lengur, liggur ekki fyrir. Stundin bíður eftir svörum um þetta frá upplýsingafulltrúa Samherja, Karli Eskli Pálssyni.
Dráttur á skilum vegna Namibíurekstrar
Í ársreikningi Samherja Holding ehf. er rakið af hverju þessi mikli dráttur hafi orðið á skilum á ársreikningum félagsins. Þar kemur fram að þetta sé vegna þess að rekstur félagsins í Namibíu hafi verið til skoðunar í kjölfar fréttaflutnings um að lögbrot hafi átt sér þar stað. Um er að ræða fréttaflutning Kveiks, Wikileaks, Stundarinnar og Al Jazeera um mútugreiðslur Samherja og tengdra félaga til stjórnmálamanna í Namibíu í skiptum fyrir fiskveiðikvóta. Þessi Namibíurekstur Samherja var hluti af samstæðu Samherja þar til árið 2018 þegar rekstrinum á Íslandi og erlenda reksturinum, nema útgerðinni í Færeyjum, var skipt í tvennt árið 2018.
Í ársreikninginum stendur orðrétt um þessar tafir: „Ekki hefur enn tekist að staðreyna nægilega vel gögn vegna útgerðar í Namibíu sem nú hefur verið aflögð og flokkuð sem slík í ársreikningunum. Þá ríkir enn óvissa um málarekstur vegna fjárhagslegra uppgjöra sem tengjast rekstrinum í Namibíu. Af þessum ástæðum gerir stjórn Samherja Holding ehf. í skýrslu sinni fyrirvara um uppgjör þess félags sem annaðist starfsemina þar í landi. Sama fyrirvara gera endurskoðendur félagsins í áritun sinni. Að öðru leyti er áritun á reikningana fyrirvaralaus. Framangreind óvissa hefur valdið þeim drætti sem orðið hefur á gerð ársreikninganna en stjórnin taldi mikilvægt að freista þess að fá sem gleggstar upplýsingar um þessa þætti áður en gengið yrði frá frá reikningunum.“
Átta núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja eru nú með réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknar embættis héraðssaksóknara á þessu Namibíumáli.
Athugasemdir