Weegee hét bandarískur ljósmyndari, sem raunar var Gyðingur fæddur í Úkraínu árið 1899 og hét þá Ascher Fellig. Hann fluttist tíu ára gamall til New York með fjölskyldu sinni og gerðist blaðaljósmyndari.
Þá fór hann að kalla sig Weegee af ókunnum ástæðum.
Sem blaðaljósmyndari var Weegee einfaldlega frábær, því honum var einstaklega gefið að ná eldsnöggum en þó svo skýrum skyndimyndum af því sem fyrir augu bar í New York, og þá ekki síður hinni myrku hlið borgarinnar en þeirri glaðlegu og litríku hlið sem blasti við þegar sólin skín.
Flassið hans Weegee var eldsnöggt og miskunnarlaust. En vildu menn endilega sjá það sem flassið lýsti svo skært upp?
Jú, ekki bar á öðru. Myndir Weegee annars vegar af glæpum og hins vegar skemmtanalífinu eru margar sögufrægar vestanhafs.
Þar á meðal er myndin sem sjá má hér að ofan. Hún var tekin árið 1943 fyrir framan Metropolitan óperuna. Þarna ganga til hátíðarsýningar tvær af ríkustu konum borgarinnar, Marie Magdalene Kavanaugh og Decies barónessa, öðru nafni Elizabeth de la Poer Beresford.
Annars þarf ekkert að fara mörgum orðum um hvað myndin sýnir. Hún sýnir andstæður.
Það sem kannski er forvitnilegt er að Weegee stillti upp þessu myndefni. Hann sendi aðstoðarkonu sína til að finna drukkna útigangskonu sem væri til í að láta mynda sig við þessar aðstæður og þegar konan fannst í einum af óhrjálegri börum Manhattan, þá kom Weegee henni fyrir við Metropolian rétt í þann mund að hann vissi að von var á fínum og forríkum frúm.
Og þær birtust að bragði.
Nú er spurningin, var myndin fölsuð eða ekki? TIME Magazine vissi vel af því hvernig ljósmyndin varð til en valdi hana samt sem eina af 100 sterkustu ljósmyndum 20. aldar.
Enda allt satt og rétt sem á henni er. En það að við vitum að hún er uppstillt, breytir það einhverju?
Athugasemdir