Ef einhver hefur enn trúað hinni gömlu þjóðsögu um víkinga sem ljóshærða hnarreista og hreinræktaða Norðurlandabúa sem ruddust skyndilega út frá norsku fjörðunum, sænsku skógunum og dönsku hæðardrögunum og æddu sem eldibrandar um nálæg lönd, þá er nú óhætt að leggja þá sögu og þá mynd endanlega á hilluna.
Mikil DNA-rannsókn sem staðið hefur á tugum víkingagrafreita í mörgum löndum hefur leitt í ljós eftirfarandi:
Norðurlandabúar á víkingatímanum höfðu miklu fjölbreyttara erfðamengi en svo að hægt sé að segja að þjóðirnar hafi þróast erfðafræðilega í Skandinavíu. Stór hluti af erfðamengni þeirra var tiltölulega nýkominn frá suðurhluta Evrópu og Asíu.
Víkingar ættaðir frá Norðurlöndunum voru ekki ljóshærðir í neinum sérstökum mæli, þótt ef til vill hafi ívið hærri prósenta þeirra verið ljóshærð en í þeim nágrannalöndum sem þeir sóttu fyrst heim. Raunar eru Norðurlandabúar nú á dögum ljóshærðari í meira mæli en víkingarnir voru.
Eftir að víkingar hófu útrás sína frá Skandinavíu sem kaupmenn og ræningjar, þá var hugtakið víkingur brátt alls ekki bundið við Skandinava. Á Írlandi og Skotlandi hafa til dæmis fundist víkingagrafir sem eru í alla staði hefðbundnar, en sá víkingur sem þar hvílir reynist ekki á neinn hátt upprunninn í Skandinavíu.
Þetta eru einfaldlega heimamenn sem hafa tekið upp lífsháttu hinna aðkomnu víkinga og ekkert skorið sig frá þeim og enginn amast við því.
Sama er upp á teningnum í austurvegi. Þar er líka að finna víkingagrafir með mönnum sem eiga sinn erfðafræðilega bakgrunn eingöngu austur í Bjarmalandi en engir Skandinavar leynast meðal forferða þeirra og mæðra.
Loks hefur rannsóknin svo leitt í ljós það sem ekki þurfti svo sem að koma á óvart þeim sem til þekkja — að norrænir víkingar sem settust að á Írlandi komu fyrst og fremst frá Noregi, danskir víkingar yfirgnæfandi á Englandi en Svíar héldu austur á bóginn.
Hérna má sjá svolítið vídjó um málið frá BBC og hérna er skrifað um þessa rannsókn í Irish Times.
Athugasemdir