Ákæruvaldið í Namibíu vill fá að minnsta kosti tvo fyrrverandi starfsmenn útgerðarfélagsins Samherja á Akureyri framselda til landsins í tengslum við rannsókn á Samherjamálinu þar í landi. Þetta kom fram í málflutningi í máli ríkissaksóknarans í Namibíu gegn namibískum sakborningum í málinu í dag, sem sagt var frá í fjölmiðlum þar í landi. Málflutningur gegn sakborningunum fór fram í höfuðborginni Windhoek í morgun en var málinu frestað til 20. maí næstkomandi.
Meðal ákærðu eru viðskiptafélagar Samherja, Bernhard Esau, Sacky Shanghala, James Hatuikulipi og Tamson Hatuikulipi en þeir þáðu mörg hundruð milljónir króna í mútur frá Samherja í skiptum fyrir hestamakrílskvóta á árunum 2012-2019 eins og greint var frá hjá Wikileaks, Kveik, Stundinni og Al Jazeeraa árið 2019.
Samherji hefur neitað því að hafa greitt mútur í Namibíu en hefur gengist við því að hafa greitt ráðgjafagreiðslur.
Hafa ekki „fullklárað framsalsbeiðnir“
Samkvæmt namibískum fjölmiðlum í dag sagði saksóknarinn í málinu, Ed Marondedze, að sakborningar númer 19, 24 og 26 í málinu, það er segja fyrirtæki í eigu Samherja sem Egill Helgi Árnason stýrði, hann sjálfur persónulega og Aðalsteinn Helgason hefðu ekki komið fyrir dóminn þar sem namibíska „ríkið væri ekki búið að fullklára framsalsbeiðnir“ gegn þeim.
Þessi orð benda til að namibíska ákæuruvaldið ætli sér að reyna að fá umrædda starfsmenn Samherja framselda frá Íslandi til að rétta yfir þeim í Namibíu. Eins og komið hefur fram verða þeir Egill Helgi og Aðalsteinn ákærðir í málinu, auk Ingvars Júlíussonar.
Namibíska blaðakonan Jemina Beukes Ya Beukes sagði á Twitter úr dómssalnum að ákæruvaldið hefði beðið um frest og að verjendur í málinu hafi orðið við því. Rannsókn málsins hefur staðið yfir í langan tíma og hefur ákæruvaldið ekki náð að klára rannsóknina þannig að réttarhöldin geti hafist og sitja sakborningarinnar í gæsluvarðhaldi á meðan.
Ákærðir fyrir fjársvik og peningaþvætti
Í ákærunni, sem sagt var frá í íslenskum fjölmiðlum fyrr á árinu, kemur fram að umræddir þrír Íslendingar verði ákærðir fyrir fjársvik eða tilraun til fjársvik auk peningaþvættis, líkt og fjórmenningarnir Bernhard Esau, Sacky Shanghala, James Hatuikulipi og Tamson Hatuikulipi.
Esau og Shangala verða líka ákærðir fyrir að misnota opinber embætti sín með spilltum hætti fyrir fjárhagslegan ávinning og allir hinir ákærðu, fyrir utan einn sakborning, verða ákærðir fyrir hlutdeild í þessum brotum ráðherranna fyrrverandi.
„Lögin segja skýrt að íslensk stjórnvöld framselja ekki íslenska ríkisborgara til Namibíu“
Helgi Magnús: Ísland framselur ekki til Namibíu
Þrátt fyrir að ákæruvaldið í Namibíu segi að það hyggist fá þessa tvo Íslendinga framselda þá er ekkert sem bendir til að þetta sé möguleiki.
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari á Íslandi, hefur sagt við Stundina að það muni ekki koma til þess að Ísland framselji íslenska ríkisborgara til Namibíu vegna þess að slíkt sé lögbrot. „Lögin segja skýrt að íslensk stjórnvöld framselja ekki íslenska ríkisborgara til Namibíu,“ sagði hann við Stundina. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að það er enginn framsalssamningur í gildi milli landanna.
Ef réttað verður yfir íslensku þremenningunum frá Samherja í Namibíu verður það því væntanlega í fjarveru þeirra.
Miðað við þetta er ákæruvaldið í Namibíu ekki komið langt í þeirri vinnu að fá Íslendingana framselda til Namibíu þar sem orð Helga Magnúsar um þetta eru afar skýr.
Athugasemdir