Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um að rannsaka hvort börn sem vistuð voru á meðferðarheimilinu í Varpholti og síðar Laugalandi 1997 til 2007 hefðu sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi á meðan þau voru vistuð þar.
Annar fundur Ásmundar með fulltrúum kvenna sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu fór fram fyrr í dag og á honum tilkynnti Ásmundur konunum að umrædd rannsókn muni fara fram. Áður hafði Ásmundur fundað með konunum síðastliðinn mánudag. Ákvað hann í kjölfarið að að fela Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar að fara í saumana á starfseminni á umræddu árabili. Stofnunin fer með eftirlit með meðferðarheimilum Barnaverndarstofu en það hlutverk var fært til stofnunarinnar árið 2018.
„Mun Gæða- og eftirlitsstofnun fara yfir öll tiltæk gögn málsins auk þess að taka viðtöl við alla hlutaðeignandi aðila málsins – þá einstaklinga sem vistaðir voru á meðferðarheimilinu, rekstraraðila og starfsmenn heimilisins ásamt ráðgjafa sem önnuðust málefni barnanna. Niðurstaða stofnunarinnar mun móta grundvöll að frekari viðbrögum stjórnvalda“ segir í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
„Þetta var það sem við vildum“
Ellefu nafngreindar konur höfðu farið fram á því í bréfi til Ásmundar að starfsemi meðferðarheimilisins yrði rannsökuð. Ein þeirra, Brynja Skúladóttir, sat fundinn með Ásmundi fyrr í dag og segist hún mjög ánægð með niðurstöðuna. „Ég er svakalega ánægð. Hann [Ásmundur] talaði um að það þyrfti að gera þetta vel. Hann sagði að það yrði farið mjög djúpt í hlutina og meðal annars tekin viðtöl við okkur og líka þá sem komu að okkar málum. Þetta var það sem við vildum. “
Athugasemdir