Fulltrúar kvenna sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, í Eyjafirði sem börn funda á morgun með Heiðu Björg Pálmadóttur, forstjóra Barnaverndarstofu. Fundarefnið er ofbeldi og ill meðferð sem konurnar hafa lýst að þæf hafi orðið fyrir á meðan þær voru vistaðar á meðferðarheimilinu, af hendi Ingjalds Arnþórssonar sem veitti heimilinu forstöðu á árunum 1997 til 2007.
Þegar hefur hátt í tugur kvenna stigið fram opinberlega og greint frá því að hafa verið beittar harðræði og ofbeldi þegar þær voru vistaðar í Varpholti og á Laugalandi. Í hópi á Facebook sem stofnaður var af konum sem höfðu upplifað ofbeldi á meðferðarheimilinu eru nú 25 manns. Þar af eru tveir karlmenn, en fyrsta árið í rekstri heimilisins voru vistuð þar bæði stúlkur og drengir en horfið var frá því og einungis stúlkur vistaðar þar frá árinu 1998 með þeim rökum að með því næðist meiri ró fyrir stúlkurnar „til að byggja upp og styrkja eigin sjálfsmynd“, að því er segir á vef Barnaverndarstofu.
Fulltrúar kvennanna óskuðu eftir fundinum með Heiðu Björgu eftir að hún lýsti því yfir í Stundinni að hún væri boðin og búin til að hitta og ræða við þær. Á fundinum vonast konurnar eftir að fá svör við ýmsum spurningum, til að mynda hversu margar tilkynningar Barnaverndarstofu bárust um harðræði á meðferðarheimilinu. Vitað er að þegar árið 2000 barst tilkynning um illa meðferð á stúlku sem þar var vistuð og að árið 2001 upplýsti umboðsmaður barna um að til embættisins hefðu borist nokkur fjöldi kvartana þess efnis.
Voru sendar í fóstur eftir dvölina
Þá vilja konurnar fá upplýsingar um hvers vegna sumar þeirra voru sendar á fósturheimili að lokinni langri meðferð í Varpholti eða á Laugalandi. Þær telja margar hverjar að engar ástæður hafi verið til þess að vista þær fjarri foreldrum sínum eftir meðferðarvistunina og hafa engar skýringar fengið á þeim ákvörðunum.
Þá vilja konurnar fá upplýsingar um hver verði næstu skref Barnaverndarstofu. Rekstur meðferðarheimilisins var á ábyrgð Barnaverndarstofu, sem gerði þjónustusamninginn við Ingjald og átti að sjá um bæði innra og ytra eftirlit með rekstrinum. Konurnar telja augljóst að Barnaverndarstofa hafi brugðist hlutverki sínu.
Konurnar eiga einnig fund með Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, næstkomandi föstudag. Í fyrirspurnartíma á Alþingi í síðustu viku sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að Ásmundur hefði upplýst ríkisstjórnina um að hann hefði málefni Varpholts og Laugalands til athugunar og ákvörðun um hvort fram færi opinber rannsókn myndi ráðast af þeirri athugun.
Stundin hefur að undanförnu óskað eftir að fá öll þau gögn sem til kunna að vera um meðferðarheimilið að Varpholti og Laugalandi hjá bæði Barnaverndarstofu og embætti umboðsmanns barna. Þau gögn hafa enn ekki verið afhent en tiltekið er að um mikið magn sé að ræða og mikið um persónulegar upplýsingar sem þurfi að afmá.
Þá óskaði Stundin eftir viðtali við Helgu Einarsdóttur hjá Barnavernd Reykjavíkur, sem fór með mál fjölmargra þeirra stúlkna sem sendar voru úr Reykjavík til vistunar í Varpholti og Laugalandi. Helga hefur hins vegar ekki gefið færi á viðtali.
Athugasemdir