Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur ekki svarað spurningum Stundarinnar um afstöðu sína til Facebook-færslu þar sem ríkisstofnunin Ríkisútvarpið var gagnrýnd fyrir fréttaumfjöllun um útgerðarfélagið Samherja. Blaðið fjallaði um málið í síðustu viku.
Ráðherrann hefur margs konar atvinnu- og vinatengsl við Samherja og starfaði hann meðal annars hjá félaginu í þinghléum á árum áður auk þess að vera stjórnarformaður útgerðarinnar. Eins og Stundin hefur fjallað um þá eru tengsl Kristjáns Þórs og Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, það náin að þeir myndu flokkast sem vinir í skilningi stjórnsýslulaga þar sem þeir umgangast hvor annan í frítíma sínum.
Sagði RÚV „ fara offari“
Stundin hefur gert árangurslausar tilraunir síðastliðna viku til að fá svör frá Kristjáni Þór við af hverju hann setti „læk“ við viðkomandi færslu, sem birt var á Facebook undir heitinu „Fokkings bjálkinn“. Þar sagði meðal annars um fréttaflutning RÚV um Namibíumál Samherja: „Miðað við það sem ég hef skoðað þessi Samherjamál sýnist mér RUV vera á leið með að falla í sömu gryfu og Seðlabankinn, - að fara offari.“ Ingunn minnist sérstaklega á fréttamann Ríkisútvarpsins, Helga Seljan, sem fjallað hefur bæði um Seðlabankamál Samherja sem og Namibíumálið.
Samherjamálið í Namibíu er nú til rannsóknar í að minnsta kosti þremur löndum eftir að Kveikur, Stundin og Al Jazeera fjölluðu um það á grundvelli gagna frá Wikileaks í nóvember í fyrra. Meðal þess sem Stundin spurði Kristján er hvað honum finnist almennt um Samherjamálið í Namibíu og af hverju hann hafi sett læk á viðkomandi færslu á Facebook.
Spurningum ósvarað þrátt fyrir fimm ítrekanir
Stundin hefur sent erindið fimm sinnum til ráðuneytis Kristjáns Þórs og til aðstoðarmanns hans, Gunnars Atla Gunnarssonar, en hefur ekki fengið nein svör við því síðastliðna viku. Þá hefur Stundin gert tilraunir til að ná tali af aðstoðarmanni Kristjáns Þórs í smáskilaboðum, sem og í síma, en án árangurs.
Eins og Stundin hefur fjallað um er erfitt að skilja „læk“ Kristjáns Þórs við þessa tilteknu færslu með öðrum hætti en að hann sé sammála inntaki hennar um gagnrýnina á RÚV þrátt fyrir að Namibíumál Samherja sé nú til rannsóknar í að minnsta kosti þremur löndum.
Meðal annars má benda á að Samherji hefur sjálfur túlkað og lagt merkingu í „læk“ einstakra starfsmanna RÚV í kærum til siðanefndar RÚV vegna umfjöllunar stofnunarinnar um Samherja. Í kæru Samherja til siðanefndar RÚV segir að í „læki“ felist að sá sem „lækar“ sé að segja að hann „tekur þannig undir þær skoðanir sem þar er lýst“. Segja má að þessi skilningur á „læki“ sem Samherji setur þarna fram sé nokkuð útbreidddur meðal fólks almennt séð.
Á þessari stundu liggur ekki fyrir af hverju Kristján Þór hefur ekki svarað spurningum Stundarinnar um málið eða hvort hann hyggst gera það yfirhöfuð.
Athugasemdir