Mál skrifstofustjórans á sviði fiskeldis og sjávarútvegs sem lét fresta birtingu laga um fiskeldi í fyrrasumar og varði þar með hagsmuni þriggja laxeldisfyrirtækja verður mögulega aldrei upplýst til fulls. Undir í málinu eru hagsmunir þriggja laxeldisfyrirtækja sem má verðleggja á 85 milljarða króna.
Ástæðan er sú að engin opinber stofnun eða eftirlitsaðili hefur skýra lögsögu til að taka upp mál skrifstofustjórans og kafa ofan í það eftir svörum.
Það sem þarf að upplýsa í málinu er af hverju skrifstofustjórinn, Jóhann Guðmundsson, ákvað að hlutast til um birtingu nýrra laga um fiskeldi um miðjan júlí 2019 svo að laxeldisfyrirtæki gætu skilað inn gögnum um laxeldisáform sín til Skipulagsstofnunar þann 17. júlí. Með því að láta fresta birtingu laganna frá 15. til 18. júlí var gildistöku laganna gagnvart aðilum, meðal annars þessum þremur laxeldisfyrirtækjum, frestað um þrjá daga.
Athugasemdir