Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji sver af sér öll eigendatengsl eða yfirráð yfir félaginu Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall-eyjum sem meðal annars var notað til að greiða laun sjómanna Samherja í Namibíu. Þetta gerir Samherji þrátt fyrir að fjármálastjóri dótturfélags Samherja á Spáni hafi verið einn þeirra sem tilgreindur var sem „notandi“ bankareiknings Cape Cod FS hjá norska bankanum DNB og þrátt fyrir að bankinn hafi talið félagið vera „undir Samherja“ á einhverjum tímapunkti.
Cape Cod FS var eitt af þeim félögum sem rætt var um í tengslum við umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera í nóvember í fyrra um mútugreiðslur Samherja til ráðamanna í Namibíu í skiptum fyrir hestamakrílskvóta. Samherji fjármagnaði Cape Cod FS, hafði aðgang að bankareikningum félagsins í gegnum starfsmann sinn og starfsmenn Samherja fengu laun af þessum bankareikningum. Málið er nú til rannsóknar í Namibíu, á Íslandi og í Noregi.
Afneitun Samherja á eigenda- og stjórnartengslum við félagið Cape Cod FS kom fram í yfirlýsingu frá stjórnarformanni Samherja, Eiríki S. Jóhannssyni, fyrir nokkrum dögum.
Í yfirlýsingunni fór Eiríkur yfir túlkun Samherja á ætluðum niðurstöðum norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein í athugun sem fyrirtækið gerði að beiðni Samherja á mútugreiðslum fyrirtækisins í Namibíu. Samherji ætlar ekki að birta niðurstöður Wikborg Rein opinberlega, að sinni að minnsta kosti. Stórfyrirtæki hafa áður komist að sömu niðurstöðu í sambærilegum málum eins og til dæmis í Telia-málinu svokallaða í Svíþjóð.
Um félagið Cape Cod FS sagði Eiríkur í yfirlýsingu Samherja: „Strax í byrjun vorum við sannfærð um að sumar þessara ásakana væru tilhæfulausar og ættu ekki við nein rök að styðjast. Eitt slíkt dæmi varðar áhafnarleiguna Cape Cod sem er í þýskri eigu. Fyrirtækið annaðist einkum greiðslu launa til skipverja í nokkrum ríkjum en í umfjöllun fjölmiðla var félagið sagt hafa verið notað í margvíslegum ólögmætum tilgangi í tengslum við reksturinn í Namibíu.“
Norski bankinn lokaði á Cape Cod
Eins og fjallað var um í Kveik og Stundinni í fyrra lét norski DNB bankinn loka bankareikningum Cape Cod FS árið 2018 vegna óvissu um eignarhald félagsins á Marshall-eyjum og vegna hættu á því að peningaþvætti kynni að vera stundað í gegnum reikninga félagsins af þessum sökum.
Í gögnum DNB bankans kom fram að á einum tímapunkti sem reikningum Cape Cod FS var lokað hafi eigandinn verið sagður kýpversk starfsmannaleiga, JPC Shipmanagement, sem leigir út sjómenn til útgerða. Þrír Þjóðverjar voru svo sagðir eiga JPC. Starfsmaður DNB spurðist fyrir um félögin fékk þessi svör frá starfsmanni JPC.
Í gögnunum um starfsemi Samherja í Afríku kemur hins vegar fram að norski bankinn hafi talið félagið á Marshall-eyjum vera undir Samherja á einhverjum tímapunkti enda kom nafn Brynjars Þórssonar, starfsmanns Samherja á Kanaríeyjum, fyrir í gögnum um uppsetningu bankareiknings fyrir félagið hjá DNB árið 2010.
Í greiningu DNB á félaginu kemur fram að félagið tilheyri Samherja ekki lengur og að í dag séu þrír einstaklingar skráðir eigendur samkvæmt JPC Shipmanagement: „Ekki lengur undir Samherja. 3 einstaklingar eru efstir í eigendakeðjunni. (Ikke under Samherji lenger. 3 privatpersoner på topp i eierstrukturen).“
Starfsmaður JPC Shipmanagement sendi DNB-bankanum hins vegar aðeins staðfestingu á eignarhaldi þess félags en ekki félagsins á Marshall-eyjum. Kýpverska félagið sagði að engin hlutabréf, eða „bearer shares“ á ensku, væru gefin út fyrir félagið í skattaskjólinu en að eignarhald félagsins væri hið sama og á starfsmannaleigunni á Kýpur.
Þegar eftir því var leitað gat starfsmaður kýpverska fyrirtækisins hins vegar ekki sent norska bankanum staðfestingu á eignarhaldi Cape Cod FS á Marshall-eyjum. Miðað við þessar upplýsingar var hvorki Samherji, né nokkur annar, skráður eigandi þessa félags. Þess vegna lokaði DNB bankareikningum félagsins þar.
Þegar bankreikningum Cape Cod FS var lokað vegna hættu á peningaþvætti árið 2008 hafði félagið millifært rúmlega 644 milljónir norskra króna, rúmlega 9 milljarða króna, í rúmlega 13 þúsund millifærslum. Þessir peningar komu frá félögum Samherja og runnu til starfsmanna félagsins sem launagreiðslur fyrir störf þeirra í Afríku, fyrst í Marokkó og Máritaníu og síðar í Namibíu.
Í yfirlýsingunni frá Samherja og Eiríki S. Jóhannssyni stjórnarformanni er því gert heldur lítið úr skjalfestum tengslum Samherja við Cape Cod FS þegar félagið er sagt hafa verið í „þýskri eigu“. DNB bankinn lokaði einmitt á viðskipti Cape Cod í gegnum bankann vegna þess að hann fékk ekki formlega staðfestingu á eignarhaldi félagsins sem DNB taldi hins vegar hafa verið „undir Samherja“.
Stofnað vegna gjaldeyrishaftanna
Við þetta bætist að önnur gögn frá DNB-bankanum benda til þess að bæði Cape Cod FS og móðurfélag þess JPC Ship Management virðast hafa orðið viðskiptavinir DNB bankans vegna þess að gjaldeyrishöft voru í gildi á Íslandi eftir hrunið árið 2008. Í áhættumati sem unnið var innan DNB áður en ákveðið var að loka ætti á viðskipti félaganna JPC Shipmanagement og Cape Cod kom meðal annars fram að JPC hefði byrjað að eiga í viðskiptum við norska bankann árið 2013 út af gjaldeyrishöftunum á Íslandi. Samherji hafði þá þegar notað dótturfélag þess Cape Cod í nokkur ár enda var starfsmaður útgerðarinnar á Kanaríeyjum með umráðarétt yfir bankareikningi félagsins allt frá árinu 2010.
Orðrétt segir um þetta í skýrslu norska bankans, líkt og Stundin fjallaði um í fyrra: „JPC Ship Management (á Kýpur) Ltd. hefur verið viðskiptavinur LCI, sem nú tilheyrir Ocean Industries Global Seafood Oslo. Félagið varð viðskiptavinur í kjölfar þess að sett voru gjaldeyrishöft á Íslandi í kjölfar bankahrunsins árið 2008. Viðskiptavinurinn gekkst undir KYC-athugun (Know Your Client) árið 2017 og var niðurstaðan úr henni sú að honum fylgdi mikil áhætta vegna millifærslna til Rússlands og Úkraínu en ekki var brugðist við því með nokkrum hætti. Millfærslur viðskiptavinarins til Rússlands og Úkraínu (greiðslur á launum) fela í sér mikla áhættu á peningaþvætti og sektargreiðslur [e. High AML and sanction risk]. Áhættumatið var unnið vegna þess að upp kom tilfelli þar sem endursenda þurfti fé.“
Í enn nánari útskýringu í skýrslu DNB segir að tilgangurinn með notkun félaganna hafi verið að greiða erlendum starfsmönnum á skipum laun: „Tilgangur viðskiptasambandsins er að greiða erlendum starfsmönnum laun, aðallega starfsmönnum frá Austur-Evrópu. Stjórnendateymið hefur verið að vinna fyrir íslensk skip. Vegna gjaldeyrishaftanna á Íslandi bauð DNB íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum upp á greiðsluþjónustu. Gjaldeyrishöftin eru ekki lengur í gildi. Viðskiptavinurinn er ekki með lán hjá okkur, aðeins tvo reikninga með Bandaríkjadollurum og einn evrureikning. Fyrirtækin eru ekki með starfsemi í Noregi eða með norska starfsmenn í vinnu, og þarf þar af leiðandi ekki að greiða skatta í Noregi. JPC Shipmanagement er með dótturfélag sem er í sams konar rekstri Cape Cod FS Ltd (Bankaafurðir: Sömu þrír gjaldeyrisreikningarnir),“ segir í skýrslunni.
Miðað við þessar skýringar um viðskiptasamband Cape Cod FS og móðurfélags þess, JPC Shipmanagement, við DNB þá var Samherji einnig ástæða þess að þessi félög opnuðu bankareikninga í DNB. Fyrst Cape COD FS árið 2010 og síðar JPC Shipmanagement árið 2013. Bankinn taldi einnig og fullyrti að Cape Cod hefði lotið stjórn Samherja á einhverjum tímapunkti.
Tengsl Samherja við Cape Cod FS á Marshall-eyjum eru því talsvert meiri en stjórnarformaður Samherja vill láta líta út fyrir í áðurnefndri yfirlýsingu. Rætur viðskiptasamband Cape Cod FS og JPC Shipmanagement virðast liggja hjá Samherja á Íslandi þrátt fyrir orð stjórnarformannsins um að Cape Cod FS hafi verið ótengdur þriðji aðili sem Samherji átti í viðskiptum við eins og við hvert annað fyrirtæki.
Athugasemdir