Ólafur Margeirsson, doktor í hagfræði, segir að stjórnvöld ættu þegar í stað að lofa því að tryggja tekjur allra Íslendinga á meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir. „Það er betra að lofa miklu og bakka svo með það, frekar en að lofa ekki nægilega miklu og þurfa síðan að stækka það,“ segir hann.
Stjórnarfrumvarp þess efnis að ríkissjóður greiði tímabundið laun þeirra sem sæta þurfa sóttkví liggur nú fyrir Alþingi. Stjórnvöld víða í Evrópu og í Bandaríkjunum hafa nú til skoðunar aðgerðir af þessum toga, allt frá því að greiða laun fólk sem vinnur heima til hugmynda um tímabundin borgaralaun handa öllum. Óttast er að sum fyrirtæki séu ekki í stakk búin til að lifa af höggið vegna samkomubanna og minni umsvifa. „Hið opinbera vill vera pottþétt á því að fólk geti borgað leiguna sína, reikninga af hita og rafmagni, íbúðalánin og svo framvegis,“ segir Ólafur. „Yfirlýsing þess efnis að tekjur fólks séu tryggðar gæti stoppað það að fólk örvænti.“
Ólafur minnir á að stjórnvöld hafi tryggt innstæður almennings í bönkum í hruninu 2008, en að nú ætti að byrja á hinum endanum og tryggja tekjur. Þetta þurfi að gera því ástandið nú sé öðruvísi en þá. „Þá varð fjármálaáfall sem varð að áfalli í raunhagkerfinu,“ segir hann. „Núna erum við að tala um áfall í raunhagkerfinu sem fer yfir í bankakerfið ef það er ekki stoppað. Þess vegna eru seðlabankar og ríkissjóðir í Evrópu á fullu að grípa það sem grípa verður.“
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sagt að halli á ríkissjóði verði minnst 100 milljarðar í ár, meðal annars vegna kostnaðar við aðgerðir til að sporna við ástandinu. „Varðandi það að fjármagna þetta, þá er það afskaplega einfalt því Ísland er með eigin mynt,“ segir Ólafur. „Málið er ekki að horfa á einhverja tölu núna, heldur sjá til þess að fólk hafi tekjur og að áfallið sem á sér stað núna í raunhagkerfinu smitist ekki yfir í fjármálakerfið. Blessunarlega er fjármálakerfið á Íslandi miklu sterkara nú en það var fyrir 12 árum og er í öfundsverðri stöðu miðað við lönd í Evrópu.“
Athugasemdir