Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, segir „æsifréttir“ einkenna umfjöllun um Samherjamálið og að það þurfi að stöðva opinbera styrki til einkarekinna fjölmiðla. Í grein í Morgunblaðinu í dag segist hann hugsa til barna stjórnenda Samherja og starfsmanna.
„Ég hugsa til starfsmanna Samherja sem horfa nú á stríðsfyrirsagnir um fyrirtækið og stjórnendur þess,“ skrifar hann. „Sérstakt samband virðist milli Ríkisútvarpsins og Stundarinnar enda er oft sagt að líkur sæki líkan heim.“
Þingmaðurinn segist ekki vita hvort eitthvað sé til í ásökununum á hendur Samherja og það verði dómstólar að leiða í ljós. „Ríkisútvarpið og Stundin hafa áður sængað saman og þá matreitt málin eftir eigin höfði til þess eins að gera hlutina enn verri. Því er mikilvægt að bíða eftir heildarmyndinni áður en opinberar aftökur hefjast. Auðvitað vonar maður að það taki ekki of langan tíma að rannsaka málið og að starfsmenn Samherja haldi áfram stoltir að búa til gjaldeyri fyrir þjóðina,“ segir hann. Í umfjöllun Stundarinnar og Kveiks, sem unnin er í samstarfi við Wikileaks og Al Jazeera kemur er sýnt fram á víðtæk brot Samherja í Namibíu með mútustarfsemi.
„Þeir og aðrir sem að fyrirtækinu standa eða starfa hjá því eiga fjölskyldur, börn sem skilja ekki orðin sem notuð“
Gunnar Bragi segir suma fjölmiðla reyna að hneyksla með æsifréttastíl og ekki hugsa um annað en áhorfstölur og „klikk“ á vefsíðum. „Það er slæmt fyrir okkur öll þegar eitt af öflugustu fyrirtækjum landsins er sakað um vafasama viðskiptahætti,“ skrifar hann. „Eðlilegt er að þeir sem ábyrgð bera svari fyrir það. Þeir og aðrir sem að fyrirtækinu standa eða starfa hjá því eiga fjölskyldur, börn sem skilja ekki orðin sem notuð eru eða hvers vegna fjölskyldufaðirinn eða móðirin blandast inn í þá umræðu sem búin var til með æsifréttastílnum. Æsingur fjölmiðilsins til að ná athyglinni er stundum svo mikill að annað skiptir ekki máli. Athygliskeppnin er eins og aurskriða sem engu eirir og síst sannleikanum sem kannski kemur í ljós seint og um síðir. Á þá ekki að upplýsa um það sem miður fer eða þegar líkur eru á einhverju broti? Jú, svo sannarlega en hvernig það er gert skiptir máli.“
Endar Gunnar Bragi pistilinn á því að lýsa hugmyndum Miðflokksins um að stöðva fyrirhugaða styrki til reksturs einkarekinna fjölmiðla sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, hefur lagt til. Í frumvarpinu er lagt til að endurgreiddur verði ritstjórnarkostnaður einkafjölmiðla, en þó aldrei um meira en nemur 50 milljónum króna á ári. „Miðflokkurinn lagði m.a fram tillögu um að hætt yrði við að ríkisvæða fjölmiðla á einkamarkaði en stjórnarflokkarnir leggja til að 400 milljónir króna renni til miðla á einkamarkaði,“ skrifar hann. „Galin hugmynd þegar ríkið er nú þegar að setja 5 þúsund milljónir króna í ríkisrekinn fjölmiðil. Það að reyna að koma öllum fjölmiðlum á ríkisspenann minnir óþægilega á samfélög þar sem stjórnvöld reyna að stýra öllum fjölmiðlum.“
Athugasemdir