Helga Vala Helgadóttir, lögmaður manns sem fjalla á um í Kastljósi í kvöld, hefur tilkynnt ritstjórn fréttaskýringaþáttarins að hún ætli að fara fram á lögbann á þáttinn. Í honum verður fjallað um hversu langt sölumenn eru tilbúnir að ganga í því að selja varning sem ekki er viðurkenndur. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Sigmar Guðmundsson, ritstjóri Kastljóss, segir í samtali við Stundina að maðurinn sé, ásamt fleirum, til umræðu í þættinum. Lögmaður hans, Helga Vala, hafi haft samband við þáttastjórnendur í dag. „Fyrst var reynt að semja við okkur á þá vegu að við myndum sleppa honum alveg úr þættinum. Við sættum okkur ekki við það enda teljum við efnið eiga brýnt erindi við almenning. Þá var okkur sagt að farið yrði fram á lögbann,“ segir Sigmar og staðfestir að krafan hafi þegar verið send sýslumanni. Hún hafi hins vegar ekki enn borist þættinum en þegar það gerist fullyrðir Sigmar að henni verði mótmælt harðlega.
Athugasemdir