Yfirlýsing sem Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona forsætisráðherra, birti 15. mars um að Gróa á leiti væri að ræða eign hennar á skattaskjólsfélagi, kom í kjölfarið á því að viðtal var tekið við Sigmund þar sem hann var staðinn að því að segja ósatt um tengsl sín við aflandsfélag.
Í yfirlýsingunni gerði hún lítið úr aðkomu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, eiginmanns hennar og forsætisráðherra Íslands, að félaginu, með því að gefa til kynna að hann hefði verið fyrir mistök skráður fyrir helmingshlut í félaginu. „Bankinn minn úti hafði gengið út frá því að við værum hjón og ættum félagið til helminga,“ sagði hún og bætti því að það hefði síðan verið „leiðrétt á einfaldan hátt árið 2009.“
Seldi konu sinni félagið daginn fyrir lagabreytingu
Í umfjöllun Kastljóss og Reykjavík Media nú í kvöld kemur hins vegar fram að hvergi í samskiptum bankans við Mossack Fonseca var talað um mistök eða leiðréttingu á þessari skráningu, heldur var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skráður fyrir helmingshlut í félaginu fram til ársloka 2009.
Þann 31. desember 2009 seldi hann eiginkonu sinni síðan helmingshlut sinn í félaginu fyrir 1 dollara. Daginn eftir, eða þann 1. janúar 2010, tóku ný lög gildi sem sett höfðu verið til höfuðs aflandsfyrirtækjum. Samkvæmt nýjum lögðum hefði hann þurft að gera grein fyrir félaginu á skattframtalinu sínu. Þar sem salan fór fram á gamlársdag komst hann hins vegar hjá því. Á hinn bóginn bar honum að gefa félagið upp í hagsmunaskráningu alþingismanna, en hann gerði það ekki.
Leyndi eign sinni á aflandsfélaginu
Sigmundur Davíð settist á Alþingi í apríl 2009. Mánuði áður, eða í mars, voru samþykktar reglur um hagsmunaskráningu þingmanna en Sigmundur Davíð lét hjá líða að skrá Wintris.
Sigmundur Davíð hefur sagt að engin leynd hafi verið yfir félaginu. Engu að síður var ekkert sem tengdi þau hjónin við félagið þar til Anna Sigurlaug greindi sjálf frá því. Fram að því voru kröfur í slitabú föllnu bankanna einu upplýsingarnar sem fundust um félagið.
Síðar hefur hann sagt ástæðuna fyrir því að hann skráði félagið ekki í hagsmunaskrá þingmanna þá að hann hafi ekki þurft þess, meðal annars vegna þess að félagið var ekki í atvinnurekstri, þótt ekki sé kveðið á um slíkt í hagsmunaskráningu Alþingsmanna. Þá hefur hann sagt að það hefði verið rangt að greina frá hagsmunum eiginkonu hans, en félagið Wintris gerði rúmlega hálfs milljarðs króna kröfur í slitabú íslensku bankanna.
Vörn Sigmundar Davíðs samræmist ekki því að hann skráði annað félag í hagsmunaskráninguna sem var ekki heldur í atvinnustarfsemi, félagið Menningu ehf.
Félagið skráð á bæði hjónin í upphafi
Samkvæmt gögnunum sendi starfsmaður Landsbankans tölvupóst þann 26. nóvember 2007 og bað um að félagið Wintris yrði tekið frá. Tveimur dögum síðar sendi sami starfsmaður ósk um að prófkúruhafar félagsins yrðu tveir og til helminga, þau Anna Sigurlaug og Sigmundur Davíð. Samkvæmt stofnskjölunum virðist félagið hins vegar vera dagsett aftur í tímann, eða þann 9. október 2007, um tveimur mánuðum eftir að starfsmaður Landsbankans falaðist eftir félaginu fyrir þau hjónin.
Samkvæmt umfjöllun Kastljóss og Reykjavík Media ber að taka öllum dagsetningum frá Mossack Fonseca með fyrirvara.
Sigmundur prókúruhafi en skráði ekki hagsmunina
Seinna hafði Sigurður Atli Jónsson, sem kvæntur er systur Sigmundar Davíðs, samband við Mossack Fonseca sem starfsmaður Landsbankans, fyrir hönd skjólstæðinga sinna, og vildi ræða fyrirkomulag þjónustunnar vegna Wintris og hvernig ætti að haga henni til framtíðar.
Þrátt fyrir breytingar á skráningu félagsins tók eiginkona Sigmundar Davíðs ekki við framkvæmdastjórn félagsins fyrr en í september 2010. Engin gögn virðast vera til þess efnis að prókúra Sigmundar Davíðs hafi verið afturkölluð, hvorki þá né síðar.
Neitaði tengslum við aflandsfélög
Í þættinum sem sýndur var í kvöld var birt viðtal við Sigmund Davíð, þar sem sænskur rannsóknarblaðamaður Uppdrag granskning, Sven Bergman, spurði ásamt Jóhannesi Kr. Kristjánssyni út í tengsl hans við Wintris Inc. Eftir að hafa spurt Sigmund Davíð almennt út í skoðanir hans á aflandsfélögum í skattaskjólum spurði Sven hvort hann hefði sjálfur tengst slíkum félögum. Sigmundur neitaði.
Sven Bergman: En hvað með þig, herra forsætisráðherra? Hefur þú eða hefur þú sjálfur haft einhver tengsl við aflandsfélag?
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: Ég? Nei. Nú… Íslensk fyrirtæki, og ég hef stafað hjá íslenskum fyrirtækjum, höfðu tengsl við aflandsfélög og meira að segja.. Hvað heitir það nú, verkalýðsfélögin… Svo að það hefði verið í gegnum slíkt fyrirkomulag en ég hef ætíð gefið upp allar mínar eignir og fjölskyldu minnar til skattsins svo að það hefur aldrei verið svo að eigur mínar séu faldar nokkurs staðar. Þetta er óvenjuleg spurning að spyrja íslenskan stjórnmálamann um. Það er eins og verið sé að ásaka mann um eitthvað. En ég get staðfest það að ég hef aldrei leynt neinum eigna minna.
Stórar spurningar standa eftir
Eftir standa ýmsar spurningar, sem Kastljós og Reykjavík Media vörpuðu fram:
Hvers vegna var félagið stofnað aftur í tímann?
Hvers vegna var eignarhaldið skráð jafnt á þau hjónin?
Ef um mistök var að ræða, hvers vegna seldi Sigmundur Davíð eiginkonu sinni sinn hlut?
Hvers vegna var þess hvergi getið að um leiðréttingu væri að ræða?
Hvers vegna fór salan fram degi fyrir breytingu á skattalögum?
Hvers vegna tók Anna Sigurlaug ekki við framkvæmdastjórn félagsins fyrr en langt var liðið á næsta ár?
Hvers vegna var prófkúra Sigmundar Davíðs ekki afturkölluð?
Í þættinum sagði Sigmundur Davíð að hann hefði gefið upplýsingar um félagið á skattaskýrslu sinni, seinna sagði hann að eiginkona hans hefði gert það. Það hefur ekki verið staðfest.
Þá hefur Sigmundur Davíð ekki Hann hefur ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum um hvort CFC-skýrslu hafi verið skilað fyrir félagið.
Athugasemdir