Össur Skarphéðinsson, þingmaður og fyrrverandi ferðamálaráðherra, vandar Ragnheiði Elínu Árnadóttur, núverandi ráðherra ferðamála, ekki kveðjurnar á Facebook. Ragnheiður Elín hélt því fram í viðtali í Fréttablaðinu í dag að orsök þess að erlendir ferðamenn gengu örna sinna á víðavangi eða utan salernisaðstaða væri hegðunarvandi ferðamannanna.
„Eftir tvö og hálft ár í embætti hefur nær ekkert gerst hjá Ragnheiði Elínu í uppbyggingu á ferðamannastöðum,“ skrifar hann og bætir því við að um leið fjölgi ferðamönnum stöðugt og að á fjölsóttum stöðum séu innviðir að springa.
Hegðunarvandi ferðamanna
Össur vísar til viðtals sem birtist við Ragnheiði Elínu í Fréttablaðinu í dag. „Það sem vekur athygli mína við þessar fréttir er að þær koma frá stöðum þar sem þessi mál eru bara alveg í lagi. Þetta er þá bara eitthvert hegðunarvandamál sem ég bara veit ekki hvernig á að leysa og það eru ferðaþjónustuaðilar sem þurfa að taka á þessu máli með sínum gestum. Þetta er bara meira eins og uppeldismál,“ er þar haft eftir ráðherranum.
„Þetta er bara meira eins og uppeldismál“
Össur segir að víða ríki öngþveiti „þar sem aðþrengdir útlendingar ganga örna sinna á víðavangi eða álfreka í görðum heimamanna“. „Hvernig bregst ráðherra ferðamála við? Hún kemur með þá gáfulegu skýringu að þetta sé „hegðunarvandamál.“ Líklegast er hún eini Íslendingurinn sem þekkir ekki þá tilfinningu að vera í spreng eftir að hafa skakast tímunum saman í rútu. Staðreyndin er því miður sú að rót vandans liggur í henni sjálfri,“ skrifar hann.
Ragnheiður lagðist gegn skattheimtu
Össur segir Ragnheiði ekki hafa komið neinu í verk til að tryggja tekjustreymi til að byggja upp innviði á ferðamannastöðum. Hún hafi hins vegar átt í langvinnum útistöðum við ferðaþjónustuna um leiðir til þess.
Þá skrifar Össur: „Og það var hún sem lagðist sem formaður þingflokks Sjálfstæðismanna harðast allra gegn skattbreytingum í tíð fyrri ríkisstjórnar sem hefðu aflað tekna til að leysa vandann. Eina „afrek“ hennar er hinn steindauði náttúrupassi sem allir, jafnt hennar flokkur sem ferðaþjónustan, skutu á bólakaf enda alvitlausasta hugmynd sem fram hefur komið í áratugi. - Síðan hefur varla til ráðherrans spurst. Í dag kom þó í ljós að hún er enn í embætti þegar hún gaf hina gáfulegu yfirlýsingu um að það væri „hegðunarvandamál“ að útlendingum yrði mál eftir að hafa hossast um hálendið. - Að sönnu má fallast á að vandinn felist í hegðun. En liggur ekki í augum uppi að „hegðunarvandamál“ Ragnheiðar Elínar er verkleysi hennar sjálfrar?“
Ferðaþjónustuaðilar kvarta undan salerniskostnaði
Kvartað hefur verið undan því framferði ferðamanna við Gullfoss og Jökulsárlón að hægja sér utan salerna. Ástdís Kristjánsdóttir, rekstrarstjóri Gullfoss Kaffi, lýsti því í samtali við mbl.is á dögunum að ferðamenn svindli sér inn á salerni án þess að borga 200 króna gjald og „mígi og skíti“ við starfsmannahús og „glotti“ þegar gerð væri athugasemd.
„Við bugtum okkur og beygjum; komið og valtið yfir okkur.“
„Við bugtum okkur og beygjum; komið og valtið yfir okkur. Skítið bara á Þingvöllum eða hvar sem ykkur sýnist. Þetta viðhorfið og það er skelfilegt. Ég er með starfsmannahús við hliðina á Gullfoss Kaffi og þar eru ferðamenn mígandi og skítandi fyrir utan gluggana. Starfsfólkið sér þetta og bankar í gluggann en fólkið glottir bara og hverfur á braut,“ sagði Ástdís.
Einnig er hægðavandi við Jökulsárlón. Þar lokar salernisaðstaða klukkan 19 á daginn. Katrín Ósk Ásgeirsdóttir hjá Jökulsárlóni ehf. lýsti vandanum í samtali við mbl.is. „Fólk er að gera þetta á bak við bílana, rúturnar, á húsin, miðasöluskúrinn og svo framvegis. Maður skilur alveg að fólki verði mál, en þetta er bara svo ógeðslegt. Við tölum við þá sem við stöndum að verki, en þetta er auðvitað svolítið vandræðalegt og fólk kannski ekki mjög opið með hægðir sínar ... Pappírinn fýkur út um allt og gerir umhverfið svo ljótt.“
Athugasemdir