Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, telur að það geti verið hagkvæmt að útvista starfsemi eftirlitsstofnana sem undir hana heyra og ætlar að láta kanna hvort slíkt megi gera í ríkari mæli en nú tíðkast. Hún vill þó að gerður sé greinarmunur á eftirliti sem felst í því að ákvarða hvort aðilar uppfylli tiltekin hlutlæg viðmið og hins vegar eftirliti sem byggir á matskenndum reglum. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem spurði alla ráðherra ríkisstjórnarinnar á desemberþingi hvort þeir hefðu látið kanna kosti þess og galla að útvista starfsemi eftirlitsstofnana til einkaaðila að hluta eða öllu leyti.
„Fyrir utan þau verkefni sem fyrr greinir hafa ekki verið kannaðir kostir og gallar þess að útvista starfsemi einstakra eftirlitsstofnana. Þegar um algerlega hlutlægar reglur er að ræða getur verið rétt að kanna að faggiltir aðilar sinni eftirliti. Slíkt hefur t.d. gengið vel varðandi bifreiðaskoðun, vottun lífrænnar matvælaframleiðslu o.fl.,“ segir í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurninni. „Ráðherra telur að útvistun eftirlitsverkefna kunni að vera hagkvæm og hyggst láta kanna hvort útvista megi verkefnum í ríkari mæli, t.d. í sambandi við endurskoðun á lögum um MAST. Þó ber að gera greinarmun á eftirliti sem felst í því annars vegar að ákvarða hvort aðilar uppfylli tiltekin hlutlæg viðmið og hins vegar eftirliti sem byggir á matskenndum reglum, sérstaklega þegar um er að ræða matskenndar hátternisreglur eins og getur komið upp í t.d. dýraverndunarmálum. Útvistun á síður við í tilfellum þar sem um huglægt mat er að ræða.“
Útvistun er þýðing á enska orðinu „outsourcing“ og lýsir því þegar stofnun felur utanaðkomandi aðilum, svo sem einkafyrirtækjum, að sinna tiltekinni þjónustu fyrir sig eða verkefnum gegn greiðslu. Í útvistunarstefnu ríkisins, sem samþykkt var í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins árið 2006, er útvistun lýst sem þjónustu „sem ríkið kaupir af utanaðkomandi aðilum, þ.e. einstaklingum, fyrirtækjum, sjálfseignarstofnunum, félagasamtökum eða sveitarfélögum, hvort sem um er að ræða þjónustu sem keypt er vegna verkefna sem ríkið sinnir sjálft eða þjónustu sem verktaka er falið að veita almenningi og fyrirtækjum“. Markmið stefnunnar var „gott samstarf við einkaaðila um úrlausn opinberra verkefna þar sem ríkið er ávallt upplýstur kaupandi“.
Athugasemdir