Auglýsing Maríu Jónasdóttur fjarheilara hefur verið fjarlægð af forsíðu Hópkaups eftir fjölmiðlaumfjöllun í gær. Auglýsingin er þó aðgengileg sé farið beint inn á viðkomandi síðu. Talsmaður Hópkaups sagði í Harmageddon í morgun að sá sem bæri ábyrgð á auglýsingu Maríu væri í sumarfríi. Óbreyttur starfsmaður var látinn svara fyrir auglýsinguna og tjáði hún útvarpsmönnum að auglýsingin hafi verið fjarlægð.
Hópkaup er í eigu félagsins Móberg sem er svo aftur í eigu Skorra Rafns Rafnsssonar.
Stundin gerði tilraun til að ræða við talsmanninn en hún var sögð vera á fundi þrátt fyrir að hringt væri fáeinum mínútum eftir að hún ræddi við Harmageddon í beinni útsendingu. Hópkaup fær hluta ágóða af sölu vöru og þjónustu sem seld er á síðunni. „Hópkaup leitast við að skipta eingöngu við trausta og örugga aðila,“ segir á heimasíðu Hópkaups.
Í viðtali við Stundina í gær sagði María að hún væri útvalin af guði og útilokar ekki að hún geti læknað sjúkling af krabbameini. „Í fjarheilunum mínum og fyrirbænum sest ég niður og tengi mig við almættið og ber upp erindið sem getur verið almenn fyrirbæn, heilun eða sérbeiðnir. Allir aldurshópar geta þegið fjarheilun og fyrirbænir. Ég hef mikið unnið við að auka orkustig einstaklingsins og andlega vellíðan með því að fjarlægja kvíða og ótta og auka þar með hæfni hans til að takast á við lífið. Einnig hafa líkamlegir kvillar oft stórminnkað og jafnvel alveg horfið,“ segir í texta auglýsingarinnar. Boðið er upp á tilboð á heilun á 4.800 krónur sem kostar vanalega 8.000 krónur.
„Einnig hafa líkamlegir kvillar oft stórminnkað og jafnvel alveg horfið“
María sagði í viðtali við Stundina í gær að Hópkaup hefði leitað til sín. „Síðan fann ég það að fyrirbænir mínar og fjarheilanir voru orðnar það sterkar að ég þurfti ekki að hafa aðstöðuna. Þannig að ég sagði henni upp. Það er hringt í mig frá Hópkaup og spurt hvort ég vilji ekki endurnýja því ég hafi auglýst hitt fyrirkomulagið í fyrra,“ sagði María.
Athugasemdir