Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hættir sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrverandi dýralæknir, mun taka við, ef niðurstaða fundar þingflokks Framsóknarflokksins gengur eftir.
Sigurður Ingi, sem nú er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lýsti þessu yfir eftir fund þingflokksins. „Niðurstaða fundarins er sú að forsætisráðherra lagði það til á þingflokksfundi að hann myndi stíga til hliðar sem forsætisráðherra og lagði til að ég tæki við því embætti en hann mun halda áfram sem formaður flokksins. Þessi tillaga var samþykkt af þingflokknum.“
Það er vilji þingflokks Framsóknarflokksins að ríkisstjórnarsamstarfið haldi áfram.
Aðspurður hvað Sjálfstæðisflokknum finnist um þetta segir Sigurður Ingi: „Ég hef kynnt Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokki þetta, hann var þá á leiðinni til Bessastaða, og við Ásmundur Einar þingflokksformaður munum eiga samtal við þau í dag.“
Fyrrverandi bóndi og dýralæknir
Sigurður Ingi er fyrrverandi bóndi og héraðsdýralæknir. Hann fæddist 20. apríl 1962 og er því að verða 54 ára gamall.
Árin 1987 til 1994 var hann bóndi í Dalbæ í Hrunamannahreppi. Þá starfaði hann samhliða bústörfum sem sjálfstætt starfandi dýralæknir árin 1990 til 1995. Hann var dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands árin 1996 til 2009 og oddviti Hrunamannahrepps frá 2002, allt þar til hann settist á þing árið 2009 í kosningunum í kjölfar efnahagshrunsins.
„Virðingarvert“
Sigurður Ingi sagði að Sigmundur væri með þessu að hlusta eftir því sem gerist í samfélaginu, með virðingarverðum hætti. „Eins og öllum er ljóst þá er mikil ólga í samfélaginu og hann hlustar eftir því sem er að gerast í samfélaginu og þetta eru hans viðbrögð og okkur finnst það vera mjög virðingarvert.“
Bjarni Benediktsson fundaði með forseta á Bessastöðum fyrr í dag. Eftir fundinn ræddi hann brotthvarf Sigmundar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði fundað með forseta í morgun í tilraun til að fá umboð til að boða til kosninga, en forsetinn hafnaði því.
Sjálfstæðismenn eiga eftir að samþykkja að Sigurður Ingi Jóhannsson verði næsti forsætisráðherra Íslands.
Ferill Sigurðuar Inga á ráðherrastóli hefur verið umdeildur og hefur hann stutt Sigmund Davíð eindregið í skattaskjólsmálinu.
Athugasemdir