Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir ósatt í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Rætt er um samskipti hennar við Gísla Frey Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmann innanríkisráðherra í nóvember árið 2013 og hvers vegna hún hafi ekki upplýst lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um þau meðan rannsókn lekamálsins stóð yfir. Orðrétt er haft eftir Sigríði Björk: „Þeirri spurningu hefur verið varpað fram hvort ég hefði ekki átt að gera lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kunnugt um samskipti mín við Gísla Frey, aðstoðarmann ráðherra, þegar hún vann að rannsókn sinni á lekamálinu. Því er til að svara að samskipti mín við aðstoðarmanninn fóru fram eftir að hann hafði lekið upplýsingum til fjölmiðla. Jafnframt að öll samskipti aðstoðarmanna og tölvupóstsendingar voru skoðuð af lögreglunni og allar upplýsingar um mín samskipti lágu þar fyrir.”
Samkvæmt heimildum Stundarinnar er þetta rangt. Lögreglan vissi hvorki um sendingu Sigríðar á greinargerðinni til Gísla Freys, né hafði lögreglan vitneskju um að Sigríður Björk hefði hringt í aðstoðarmanninn að fyrra bragði að morgni dags þann 20. nóvember árið 2013. Hringdi hún þá úr leyninúmeri sem lögreglan kannaði ekki hver ætti. DV fékk hins vegar staðfest að númerið tilheyrði fjölskyldu Sigríðar og fjallaði um málið þann 18. nóvember síðastliðinn.
Kjarninn gerir málinu góð skil í dag og ber ummæli Sigríðar undir Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksoknara. Haft er eftir Helga að lögreglu hafi ekki verið kunnugt um tölvupóstinn með greinargerðinni. „Að sjálfsögðu var pósthólf Sigríðar ekki rannsakað, en mér er ekki kunnugt um að merki um þessa póstsendingu hafi fundist í pósthólfi Gísla Freys og var hún ekki hluti af málsgögnum,” segir Helgi í skriflegu svari til Kjarnans og bætir við: „Ákæruvaldið fékk fyrst upplýsingar um að greinargerðin hefði verið send þegar Sigríður greindi frá því í fjölmiðlum eftir að umfjöllun um símasamskipti hennar við Gísla Frey komu til umræðu eftir að dómur gekk.“
Athugasemdir