Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, var kosin sem aðalmaður í stjórn Jafnréttissjóðs Íslands á Alþingi í nótt og tekur við af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem fulltrúi sjálfstæðismanna í sjóðnum.
„Hér hefur borist ein tilnefning um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Þar sem ekki eru fleiri tilnefndir en kjósa skal lýsi ég Hönnu Birnu Kristjánsdóttur réttkjörna sem aðalmann í Jafnréttissjóði Íslands,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis þegar hún tilkynnti um kosningu eins aðalmanns í Jafnréttissjóð Íslands í stað Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem kosin var af Alþingi þann 15. mars í fyrra.
Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður á grundvelli þingsályktunar þann 19. júní 2015 í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna. Megintilgangur sjóðsins er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu.
Hanna Birna Kristjánsdóttir er fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og gegndi embætti innanríkisráðherra árin 2013 til 2014. Hún sagði af sér ráðherraembætti eftir að fram hafði farið lögreglurannsókn á ráðuneyti hennar og pólitískur aðstoðarmaður dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á þagnarskyldu sem bitnaði á tveimur hælisleitendum frá Nígeríu. Þá hafði ráðherra margsinnis verið staðin að því að segja fjölmiðlum og Alþingi ósatt um málavöxtu. Í ársbyrjun 2015 komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að Hanna Birna hefði brotið lög og misbeitt valdi sínu með því að hafa ítrekuð afskipti af lögreglurannsókninni sem beindist að hennar nánustu aðstoðarmönnum og beita lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu þrýstingi. Hér er farið yfir helstu atriði málsins.
Athugasemdir