Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, gagnrýndi harðlega íslenska stjórnmálamenningu og fjölmiðla í Vikulokunum á Rás 1 í dag. Þar var hún til viðtals ásamt þingmönnunum Björt Ólafsdóttur, Ögmundi Jónassyni og Karli Garðarssyni. Benti Hanna Birna á að konur fengju oft harðari útreið í stjórnmálum heldur en karlar.
„Mér finnst konur mæta allt öðrum veruleika en vinir mínir strákarnir, allavega í mínum flokki,“ sagði Hanna Birna. Leiða má líkum að því að þarna hafi hún óbeint verið að vísa til stuðningsins sem Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, fékk innan Sjálfstæðisflokksins þegar staða hans var veik vegna Orku Energy-málsins. Samkvæmt heimildum Stundarinnar gagnrýndi Hanna Birna samherja sína á þingflokksfundi í fyrra fyrir að hafa ekki veitt sér sama stuðning í lekamálinu og Illugi Gunnarsson naut í sínum hremmingum.
Engu að síður er ljóst að sjálfstæðismenn vörðu hana af miklum krafti í opinberri umræðu um lekamálið og skiptu upp heilu ráðuneyti svo Hanna Birna gæti áfram gegnt ráðherrastöðu þrátt fyrir sakamálarannsókn á ráðuneyti hennar og ákæru ríkissaksóknara á hendur aðstoðarmanni hennar. Þá neitaði fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar að afhenda fjölmiðlum upplýsingar um leyniathugun sem fram fór á vegum rekstrarfélags stjórnarráðsins. Upplýsingarnar áttu síðar eftir að afhjúpa að margumtöluð innanhússrannsókn rekstrarfélagsins á trúnaðarbroti innanríkisráðuneytisins hafði verið í algjöru skötulíki.
Í Vikulokunum sagðist Hanna Birna aldrei mundu hafa trúað því að hún ætti aðeins eftir að sitja í þrjú ár á Alþingi, enda hefðu stjórnmál alla tíð verið hennar helsta ástríða. „Frá því man eftir mér, pínulítið kríli, hefur þetta verið það eina sem mig hefur langað til að gera,“ sagði hún.
Hanna Birna sagðist upphaflega hafa farið inn í stjórnmál til að breyta hugmyndinni um konur. Þetta hefði ekki gengið og hjarta hennar væri ekki lengur í stjórnmálunum. „Mér finnst ganga of hægt að breyta stjórnmálunum, mér finnst þau gamaldags, mér finnst þau staðin, mér finnst þau kalla á endalaus átök, mér finnst þau kalla á uppstillingar á svörtu og hvítu, mér finnst þau ekki gefa mér tækifæri til að rækta það góða í mér og mér finnst um leið að það skili ekki góðu fyrir almenning,“ sagði hún.
Þá vék hún að fjölmiðlum en viðurkenndi jafnframt að ekki væri vinsælt að gagnrýna þá. „Fjölmiðlar hafa engan áhuga á sátt og samstöðu,“ sagði Hanna Birna og bætti því við að hvað þetta varðaði langaði hana í „annan veruleika“. Það væri ekki aðeins stjórnmálamönnum að kenna að staða stjórnmálanna væri bagaleg heldur einnig fjölmiðlum. „Menn vilja frekar heyra að við Ögmundur séum ósammála og séum að takast á, menn vilja frekar fréttina um Eygló sem sat hjá heldur en um okkur sem tókst að vinna rosalega stór og góð mál inn á þingi, menn vilja frekar þær fréttir, þær selja og það er líka bara staðreynd lífsins,“ sagði hún. Skemmst er að minnast þess að á fimmtudaginn gagnrýndi Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fjölmiðla harðlega og sagðist hafa á tilfinninguna að þeir hefðu enga ritstjórnarstefnu, fylgdu engum þræði og væru eins og tóm skel.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sagðist í spjallinu í Vikulokum ekki hafa upplifað að konur fengju harðari útreið í stjórnmálum en karlar. Hann sagðist stundum hafa á tilfinningunni að konur væru „að nýta sér svona tal sér til framdráttar“. Þá hafnaði hann hugmyndum Hönnu Birnu um samræðu- og sáttastjórnmál og sagði mikilvægt og eðlilegt að átakalínurnar í stjórnmálum væri sem sýnilegastar.
Athugasemdir