Þótt Ísland skori hátt í alþjóðlegum samanburði hefur jafnrétti ekki enn verið náð. Innan við fjórðungur framkvæmdastjóra fyrirtækja eru konur, svipað hlutfall er í sendiherrastöðum og um þriðjungur forstöðumanna ríkisstofnana eru konur. Skortur er á konum í stjórnunarstöðum, í Hæstarétti, bæjarstjórastöðum og oddvitasætum. Launamisrétti og kynbundið ofbeldi, sem og úrræðaleysið gagnvart því, eru enn ein birtingarmynd þess. Misréttið þrífst víða, meðal annars á Alþingi.
Leikurinn
Ein þeirra kvenna sem hefur ítrekað bent á þessa staðreynd er Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem sagði á dögunum að það væri ein ástæða þess að hún hættir á þingi eftir þetta kjörtímabil. Hún tók dæmi, ef kona stendur á sannfæringu sinni þá er hún frekja, ef kona lendir í hremmingum er hún ekki eins heilög og konur í stjórnmálum þurfa að vera, þær eigi að vera einhvern veginn „eins og hreinar meyjar“, eins og hún orðaði það. „Viðhorfið til kvenna er enn það að ef við erum í stjórnmálum megum við ekki taka þátt í leiknum. Við eigum ekki að taka þátt í leiknum á sömu forsendum og karlar.“
Kjarninn í því sem Hanna Birna er að segja er réttur. Veruleiki karla og kvenna er oft ólíkur. Konur eiga oft erfiðara uppdráttar, oftar er horft framhjá framlagi kvenna, oftar er þeim haldið frá ákvörðunum sem teknar eru á óformlegum vettvangi, þær eru frekar gerðar hlægilegar eða sagðar byggja skoðanir á tilfinningum, og þeim er harðar refsað fyrir það sem þær gera eða gera ekki. Þær hafa oft lýst þessu. Nýlega var ráðherra smættaður niður í leikskólabarn fyrir að standa á sannfæringu sinni, hún sögð frekja, með súkkulaði út á kinnar. Ekki er langt síðan formanni stjórnmálaflokks var líkt við gluggaskraut. Aðeins lengra, en ekki mjög, er síðan þingkona sem var teiknuð upp sem vændiskona í Morgunblaðinu fyrir störf sín á Alþingi.
Sú kona
Vandinn við málflutning Hönnu Birnu er bara sá að hún hefur áður sett umræðuna um stöðu kvenna í stjórnmálum í samhengi við stöðu sína vegna lekamálsins. Hún hefur talað á þann veg að lekamálið hafi verið birtingarmynd misréttis, þar sem konur eigi á brattann að sækja í stjórnmálum, fái síður stuðning en karlar, um þá sé slegin skjaldborg en ekki þær. Niðurstaðan sé sú að hún sem kona hafi fengið minni stuðning en karlar sem verða uppvísir að spillingu.
Illugi Gunnarsson hélt til dæmis ráðherrastólnum eftir Orku Energy-málið, þar sem hann varð uppvís að því að nota stöðu sína sem ráðherra til þess að hygla aðilum sem hafa stutt hann fjárhagslega.
Fram að lekamálinu hafði Hanna Birna átt farsælan stjórnmálaferil, verið borgarstjóri, ráðherra og formannsefni flokksins. Þegar lekamálið kom upp naut hún svo mikils stuðnings innan flokksins að ráðuneyti hennar var skipt uppt svo hún gæti setið áfram sem ráðherra þrátt fyrir sakamálarannsókn og ákæru á hendur aðstoðarmanni hennar sem síðar var dæmdur fyrir brot gagnvart fólki sem tilheyrir viðkvæmasta hópi samfélagsins. Hún varð uppvís að því að beita bæði lögregluna þrýstingi og blaðamennina sem héldu málinu á lofti.
Hún þráaðist við að hætta, og réttlætti það með því að segjast „ekki vilja verða sú kona sem lætur undan slíkum ómaklegum, ósanngjörnum og ótrúlega óréttlátum aðdróttunum um að ég hafi gert eitthvað rangt. Mér finnst ekki að ég eigi að gefast upp fyrir því.“
Hanna Birna hefur enn ekki viðurkennt að hafa gert neitt rangt. Enn í dag setur hún brotthvarf sitt úr stjórnmálum frekar í samhengi við feðraveldið en eigin gjörðir.
Samstaðan
Á meðal þeirra sem taka undir málflutning Hönnu Birnu er ein farsælasta stjórnmálakona landsins, fyrrverandi borgarstjóri, ráðherra og flokksformaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem hætti í kjölfar hrunsins.
„Feðraveldið og karlasamstaðan lifir enn góðu lífi í stjórnmálum. Það skvettist á karla og þeir hrista það af sér, það skvettist á konur og þær eru eltar uppi þangað til þær segja af sér,“ sagði hún í þessu samhengi.
„Ef feðraveldið og samtryggingin veldur því að spilltir karlar geta setið áfram á valdastóli en ekki konur, þá eru það ekki þær sem eru fórnarlömb feðraveldisins, heldur samfélagið sem situr uppi með spillinguna.“
Stundum er talað um að jafnrétti sé fyrst náð þegar vanhæfar konur eru valdar í stjórnunarstöður, rétt eins og vanhæfir karlar. Út frá þessu sjónarmiði er hægt að fallast á sjónarmið þeirra, að það felist ákveðið jafnrétti í því að konur megi vera jafn spilltar í stjórnmálum og karlar, að þær þurfi ekki að hafa ásýnd hinnar hreinu meyjar heldur hafi fullt frelsi til þess að taka þátt í leiknum, eins og Hanna Birna orðaði það, til jafns á við karla.
Það er hins vegar sorgleg nálgun á jafnréttisbaráttuna, sem er mannréttindabarátta og snýst um frelsi einstaklinga, sömu tækifæri fyrir alla og jafnan rétt, að konur megi vera jafn spilltar og karlar. Ef feðraveldið og samtryggingin veldur því að spilltir karlar geta setið áfram á valdastóli en ekki konur, þá eru það ekki þær sem eru fórnarlömb feðraveldisins, heldur samfélagið sem situr uppi með spillinguna.
Kerfið
Samfélag sem situr uppi með kerfi sem hampar karllægum gildum á kostnað hins kvenlega, þar sem konum er síður hleypt í stjórnunarstöður og stjórnir fyrirtækja og helst alls ekki að Hæstarétti. Þar sem konur fá lægri laun fyrir sömu störf, þar sem konur sem sigla á móti straumnum eru litnar hornauga og leiðin til valda einskorðast oft að því að þær einangrist í samfélagi karla, þar sem þær eru lítillækkaðar fyrir að tjá skoðanir sínar og þurfa að sitja undir hótunum. Þar sem kynferðisbrot eru ekki tekin nógu alvarlega, óskiljanlegir dómar falla trekk í trekk og refsingin virðist oft harðari gagnvart þolendum en gerendum. Þar sem kerfið hlúir ekki sérstaklega að börnum sem eru á vettvangi þegar lögreglan er kölluð til vegna heimilisofbeldis og hugmyndir um karlmennsku eru svo skakkar að allt of margir ungir menn fyrirfara sér frekar en að leita sér hjálpar. Þar sem það þykir væl en ekki styrkur að leita sér aðstoðar vegna vanlíðunar og geðheilbrigðiskerfið er svelt, láglaunastefnu er viðhaldið og fjölmargir eru fastir í umönnunarhlutverki gagnvart öldruðum, sjúkum og litlum börnum sem fá hvergi dagvistun.
Hin raunveruleg fórnarlömb feðraveldisins eru víða, þau eru á þingi og þau eru barnshafandi kona sem aðstoðarmaður ráðherra lak viðkvæmum trúnaðarupplýsingum um þegar hann ætlaði að leika leikinn. Kannski hefur Hanna Birna þurft að líða fyrir kyn sitt á einhverjum tímapunkti í hennar ferli, en hún var ekki fórnarlamb feðraveldisins í lekamálinu.
Athugasemdir