Staðlaráð Íslands telur að opinber birting staðalsins ÍST 85 í reglugerð myndi jafngilda eignarnámi. Staðallinn liggur til grundvallar frumvarpi félagsmálaráðherra um jafnlaunavottun en er ekki aðgengilegur almenningi nema gegn greiðslu og kostar um 11 þúsund krónur.
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar skilaði nefndaráliti á mánudag þar sem lagt var til að efniskröfur staðalsins yrðu birtar í reglugerð. Í kjölfarið sendi Staðlaráð nefndinni harðort bréf. „Slíkt myndi jafngilda eignarnámi, þar sem verið væri að leggja hald á afurð þeirrar vinnu sem lýst er hér að ofan,“ segir meðal annars í bréfinu sem Stundin hefur undir höndum. „Ráðherra getur ekki falið neinum aðila að birta staðalinn ÍST 85, einfaldlega vegna þess að ráðherra hefur ekkert vald til þess að ráðstafa eignum annarra.“
Eftir að bréf Staðlaráðs barst skilaði meirihluti nefndarinnar framhaldsáliti þar sem tillagan um birtingu staðalsins í reglugerð er dregin til baka. „Meiri hlutinn telur rétt að falla frá breytingartillögu um að ráðherra geti með reglugerð falið öðru stjórnvaldi eða Staðlaráði Íslands birtingu staðalsins ÍST 85. Meiri hlutinn beinir því til velferðarráðuneytis, í samráði við Staðlaráð Íslands, að semja um aðgang að staðlinum verði frumvarpið að lögum,“ segir í álitinu.
Staðlaráð Íslands er félagasamtök en starfar á grundvelli laga um staðla og Staðlaráð Íslands. Staðlaráð hefur lagst eindregið gegn því að notkun staðalsins ÍST 85:2012 sé lögfest eins og ætlunin er með frumvarpi Þorsteins Víglundssonar félagsmálaráðherra um jafnlaunavottun.
Fram kemur í umsögn Staðlaráðs um frumvarpið að staðlar séu almennt ætlaðir til valfrjálsrar notkunar. Þá undrast Staðlaráð að ekkert samráð hafi verið haft við sig þrátt fyrir að Staðlaráð sé útgefandi staðalsins sem frumvarpið byggir á og jafnframt eigandi höfundar- og nýtingarréttar af honum. „Staðlaráð telur þessa framgöngu með ólíkindum og harmar slíkt samráðsleysi,“ segir í umsögninni.
Aðeins nefndarmenn Pírata í allsherjar- og menntamálanefnd, þau Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Gunnar Ingiberg Guðmundsson, leggjast gegn frumvarpinu um jafnlaunavottun. Í gær lögðu þau fram frávísunartillögu þar sem útfærsla jafnlaunavottunarinnar er gagnrýnd harðlega.
„Það vekur athygli að sá aðili sem samdi staðalinn skuli mæla gegn því að hann verði lögfestur eins og hér er lagt til. Staðlaráð gagnrýnir einnig að ekki hafi verið haft samráð við ráðið fyrir framlagningu frumvarpsins. Það verður að teljast merki um ófagleg vinnubrögð að ekki hafi verið haft samráð við höfund staðalsins sem á að lögfesta áður en lagafrumvarpið var lagt fram,“ segir í áliti Þórhildar og Gunnars.
Þá benda þau á að samkvæmt 27. gr. stjórnarskrárinnar ber að birta lög opinberlega. Fram kemur að í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar hafi komið fram að faggildingardeild Einkaleyfastofu sé ekki í stakk búin til þess að sinna því aukna álagi sem muni fylgja lögfestingu frumvarpsins, enda hafi ráðuneytið enn ekki lokið vinnu við þau viðmið sem líta beri til við faggildingu staðalsins.
„Jöfn kjör kynjanna eru ein af grunnstoðum jafnréttissamfélags. Það er því miður að mál þetta skuli fært til 3. umræðu og atkvæðagreiðslu þegar ljóst verður að teljast að málið er hvergi nærri tilbúið til afgreiðslu. Tími til umfjöllunar um málið hefur verið mjög af skornum skammti og eru margir þættir þess enn óskýrðir,“ skrifa Píratarnir. „Engin málefnaleg rök hafa komið fram sem rökstyðja það að mál þetta verði að afgreiða nú. Málsmeðferðin hefur leitt til þess að ekki hefur verið raunhæft að skoða breytingar sem leitt hefðu til þess að frumvarpið yrði unnið í sátt allra aðila sem það snertir. Ef frumvarpið á að ná því markmiði sem að er stefnt er nauðsynlegt að málið sé unnið vel og í sátt. Verði frumvarpið að lögum á þessum tímapunkti verður að teljast ólíklegt að það nái markmiði sínu.“
Sjá einnig: Heimsfrægt frumvarp á hrakhólum
Athugasemdir