Erdogan, forseti Tyrklands, mun fara til Rússlands á fund Vladimir Pútín, en fundurinn er þeirra fyrsti síðan rússnesk þota var skotin niður yfir Tyrklandi á síðasta ári.
„Sendiherrann hefur tilkynnt okkur að vor kæri forseti (Erdogan) hafi staðfest að hann muni verða í Pétursborg þann 9. ágúst,“ höfðu rússneskar fréttastofur eftir Mihmet Simsek, fulltrúa Erdogans. Stjórnvöld í Tyrklandi segja að Erdogan og Pútín hafi ákveðið að hittast áður en G20 ráðstefnan verður haldin í Kína í september, þar sem leiðtogar 20 stærstu iðnríki heims munu hittast. Simsek fór sjálfur til Moskvu til þess að hitta rússneskan starfsbróður sinn, Arkady Dvorkovich, í tilraun til þess að „leiða ástandið til lykta og bæta samskipti þjóðanna eins fljótt og auðið er og á meiri hraða.“
Eftir að flugvélin var skotin niður andaði köldu á milli ríkjanna tveggja og lét rússneskur embættismaður hafa eftir sér að atvikið væri eins og „hnífur í bakið“. Yfirvöld í Moskvu hins vegar tilkynntu í síðasta mánuði að Erdoğan hefði beðið Pútín afsökunar á atvikinu. Í kjölfarið aflétti Rússland ýmsum efnahagsþvingunum, banni við innflutningi á tyrkneskum vörum og farþegaflugum til landsins.
„Það eru engar líkur á því að Tyrkland muni ganga í Evrópusambandið á næstu áratugum.“
Refsiaðgerðirnar höfðu komið hart niður á tyrkneska ferðamannaiðnaðinum, sem byggist að miklu leyti á ferðalöngum frá Rússlandi. Pútín á svo að hafa hringt í Erdoğan eftir misheppnað valdarán í Tyrklandi fyrr í mánuðinum og lýst yfir stuðningi við hann.
Aðildarviðræður Tyrklands að Evrópusambandinu eru í uppnámi, eftir umfangsmiklar hreinsanir og handtökur í landinu í kjölfar valdaránstilraunarinnar. David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, var einn helsti talsmaður þess að Tyrkir gengu í sambandið. Honum hefur hins vegar snúist hugur. „Það eru engar líkur á því að Tyrkland muni ganga í Evrópusambandið á næstu áratugum,“ sagði hann í vikunni. „Þú getur ekki fundið neinn sérfræðing í þessum málum sem heldur því fram að það muni gerast, því það mun ekki gerast.“
Athugasemdir