„Það er ekki það að mér líki ekki við hann – ég hata hann,“ sagði síðhærði barþjónninn þar sem við þeystum eftir enn einum þröngum stígnum í hverfinu Karaköy í Istanbúl. Umkringd rakarastofum, kaffihúsum og börum allt um kring hafði okkur leikið forvitni á að vita hvaða skoðanir þessi ungi tyrkneski hipster hefði á forseta lands síns, Recep Tayyip Erdoğan. Svarið hér að ofan spratt náttúrlega fram og af hóflegum krafti allt þar til frekari smástíflur brustu: Jú, auðvitað vildi hann ekkert með mannfjandann hann Erdogan hafa! Maðurinn stóð gegn öllu því sem hinn ungi Tyrki stóð fyrir; ekkert nema íhaldssemin sem vildi auka vægi trúarinnar á öllum sviðum þjóðlífsins á meðan hann fangelsaði blaðamenn og talaði fyrir því að taka upp dauðarefsingar að nýju. Já, það væri í rauninni ekkert mikið meira um þetta að segja, sagði þessi nýi vinur okkar, annað en að Erdoğan væri Erdoğan með mikilmennskubrjálæði.
Við höfðum hitt barþjóninn nokkru fyrr þar sem við hvíldum lúin bein á litlum hipsteralegum djassbar sem lá við þrönga götu í Karaköy-hverfinu, einhverju elsta og sögufrægasta hverfi Istanbúl. Hann var með axlasítt dökkt hár, í töluvert rifnum gallabuxum, og tilheyrði augljóslega þeim stóra hópi bóhema og listamanna sem setja mark sitt á hverfið. Við spjölluðum við hinn unga barþjón sem var forvitinn um Ísland og sagðist eiga sér þann draum að heimsækja landið einn daginn og fá jafnvel tækifæri til þess að sjá norðurljósin. Hann var eins konar aðkomumaður í Istanbúl, utan af landi, og trúði okkur fyrir því að hann hefði átt heldur erfitt með að fóta sig í stórborginni. Þá sérstaklega eftir að hann skildi við eiginkonu sína.
Athugasemdir