Í viðtali við Útvarp Sögu fyrr í vikunni líkti Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, mótmælum sem haldin voru á Íslandi, eftir að í ljós kom að nöfn þriggja ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma fram í Panamaskjölunum, við hina misheppnuðu valdaránstilraun í Tyrklandi.
Vigdís var viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttur, en ljóst er að atburðarásin sem fór af stað í kjölfar birtingar Panamaskjalanna var henni ekki að skapi.
Í Kastljósþætti í byrjun apríl var fjallað um aflandsfélagið Wintris sem skráð var á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og eiginkonu hans. Einnig var fjallað um aflandsfélagið Falson & Co í eigu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og mál Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, sem var skráð prókúruhafi skúffufyrirtækis á Tortóla tveimur dögum eftir að hún tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins árið 2006.
„Hér var framkvæmt hálfgert valdarán og það heppnaðist en í Tyrklandi var valdarán sem misheppnaðist.“
Eftir Kastljósþáttinn voru haldin gríðarlega fjölmenn mótmæli á Austurvelli þar sem áætlað var að allt að 20.000 manns hafi verið viðstaddir. Um þetta sagði Vigdís í viðtalinu við Útvarp Sögu:
„Er það lýðræðislegt að það sé hægt að koma niður á Austuvöll og hrekja réttkjörin stjórnvöld frá völdum? Það var nú misheppnað valdarán í Tyrklandi, nýyfirstaðið og teljum við okkur nú vera meira lýðræðisríki heldur en nokkurn tíma Tyrkland, hér var framkvæmt hálfgert valdarán og það heppnaðist en í Tyrklandi var valdarán sem misheppnaðist. Er það bara nóg að það sé hægt að mæta bara á Austurvöll og hrekja réttkjörin stjórnvöld frá völdum, sem hafa svo stóran meirihluta?“
Tveimur dögum eftir hin fjölmennu mótmæli sagði Sigmundur Davíð forsætisráðherra af sér, og Sigurður Ingi Jóhannsson tók við embætti. Jafnframt var því lýst yfir að alþingiskosningum yrði flýtt fram á haust.
Athugasemdir