Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, segir að sér sé öllum lokið vegna framgöngu Óttars Proppé, formanns flokksins, í umræðum um skipun dómara við nýjan Landsrétt.
„Nei Óttarr Proppé nú er mér öllum lokið. Var þetta bara plat hjá okkur á sínum tíma? "Minna fúsk, minna drasl og minna lélegt þýðir meiri Björt framtíð",“ skrifar Páll á Facebook.
Þá vitnar hann í fleyg ummæli Styrmis Gunnarssonar úr rannsóknarskýrslu Alþingis: Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.
„Datt þessi tilvitnun í hug eftir að hafa horft á fulltrúa og boðbera nýrra stjórnmála í ræðustól alþingis í umræðum um tillögu dómsmálaráðherra um dómara í nýjan Landsrétt,“ skrifar Páll Valur.
Páll er einn af þremur fyrrverandi þingmönnum Bjartrar framtíðar sem sagt hafa skilið við flokkinn. Páll Valur tilkynnti um þá ákvörðun sína í apríl, en Róbert Marshall og Brynhildur Pétursdóttir skráðu sig úr flokknum þann 3. janúar, daginn sem flokkurinn hóf formlega stjórnarmyndunarviðræður við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn.
„Ég sé ekki að ég eigi lengur samleið með flokknum á þeirri leið sem hann er (ég á raunar eins og margir aðrir mjög erfitt með að átta mig á hvert flokkurinn stefnir og fyrir hvað hann stendur),“ skrifaði hann í pistli þegar hann sagði sig úr Bjartri framtíð.
Athugasemdir