Birna Mjöll Atladóttir fatahönnuður er ósátt við að Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps sögu, hafi notað húfu sem hún hannaði til þess að koma á framfæri yfirlýsingu gegn fjölgun múslima á Íslandi.
„Munu allir útvarpsmenn framtíðarinnar líta svona út?“ spurði Arnþrúður á föstudaginn á Facebook-síðu Útvarps sögu, líkt og Stundin greindi frá.
Birna Mjöll greinir frá því að Arnþrúður hafi sjálf beðið um húfu, en upphaflega beðið hana um rauða húfu, en svo hafi henni snúist hugur og hún viljað svarta. Hana notaði hún síðan sem búrku á meðfylgjandi ádeilumynd.
„Mikið þykir mér þetta leiðinlegt,“ segir Birna Mjöll. „Þetta er saumað sem hlýr og góður skjólfatnaður. Hún bað um rauða húfu til að auglýsa þær. Seinna bað hún um svarta og þá gerði hún þetta.“
Birna byrjaði að sauma lambhúshettur fyrir 23 árum og hefur saumað ýmis klæði undir merkinu Mjallarföt, en lambhúshetturnar hennar eru ætlaðar fyrir veðurfarslega öfgakenndar íslenskar aðstæður.
Athugasemdir