Magnús Þór Hafsteinsson, sem skipaði oddvitasæti í Flokki fólksins og er þekktur andstæðingur flóttamanna, skrifar nafnlausar greinar á Eyjuna.is, meðal annars um að „vargöld“ sé í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, vegna glæpa.
Nýjasta grein hans bar yfirskriftina „Vargöld í Stokkhólmi: Lögreglan biður um liðsauka“. Í fréttinni er greint frá því að lögreglan í Stokkhólmi kortleggi nú þörf fyrir aukinn mannafla, en að um sé að ræða uppgjör glæpahópa og að hætta fyrir almenning hafi ekki aukist. „Segja má að vargöld ríki nú í borginni,“ segir í fréttinni. Í ummælum við fréttina er varað við innflytjendum. „Viljum við virkilega fá þetta fólk hingað?“ segir einn. Frétt Eyjunnar hefur verið deilt í hópi Íslendinga sem eru andsnúnir innflytjendum og meðal annars vísað til orða Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem gaf ranglega til kynna að hryðjuverkaárás hefði átt sér stað í Svíþjóð þegar hann hélt ræðu fyrir stuðningsmenn sína í Flórída á dögunum.
Athugasemdir