Í hvert sinn sem Arna gengur fram hjá ákveðinni verslun við Laugaveg fær hún sting í magann. Gömul ónotatilfinning sækir að og fyllir öll vit, hún man enn lyktina af gamla manninum sem tók á móti henni og leiddi hana niður í dimman kjallarann þar sem hann hreytti því út úr sér hvort hún ætlaði ekki að koma sér úr fötunum áður en hann lagðist á hana. Hún man eftir því þegar hún lá á gólfinu og horfði í kringum sig og velti því fyrir sér hvort hún myndi ekki örugglega komast aftur út úr þessum drungalega kjallara, þar sem lágt var til lofts og fúkkalykt af veggjum, á meðan hann rumdi ofan á henni. Hún man líka eftir niðurlægingunni sem fylgdi því að ganga út með tuttugu þúsund kall í vasanum og þau skilaboð að hann hefði nú ekki fengið mikið fyrir peninginn, hún væri svo sem ekkert sérstök. Það var nógu vont að vera í vændi, hvað þá þegar henni var sýnd lítilsvirðing. Allt þetta rifjast upp fyrir henni í hvert skipti sem hún fer Laugaveginn. Stundum verður tilfinningin svo sterk að hún óttast að koma upp um sig, eins og samferðafólk hennar skynji hvað er í huga hennar.
Dásamaði vændi
Ekki það að hún þurfi að hafa áhyggjur. Það myndi engan gruna að Arna hefði verið í vændi. Ekkert í fari hennar bendir til þess. Útlit hennar og fas er eins langt frá steríótýpíunni af vændiskonu og hægt er. Þetta er ekki kona sem gerir út á kynþokka, heldur gáfur og húmor. Hún er kennaramenntuð, starfar á leikskóla og er vel liðin af bæði samstarfsfélögum, foreldrum og börnunum sjálfum.
Hún á samt þessa sögu – sem er oft sögð í tengslum við vændi. Áður en hún varð tíu ára hafði hún verið misnotuð innan fjölskyldunnar, áður en hún varð tvítug höfðu vinir hennar nauðgað henni og áður en hún varð þrítug var hún farin að selja blíðu sína. Hún var ein af þessum „hamingjusömu hórum“ sem sögðu sögu sína í blaðaviðtölum og dásömuðu vændi.
Það var þá – á meðan hún reyndi að halda því litla sem eftir var af sjálfsvirðingunni með því að láta eins og allt væri í lagi, leika leikritið og gera það vel. Þar kom þó að hún gafst upp og neyddist til að horfast í augu við sjálfa sig og gjörðir sínar, sökk í hyldjúpt þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Síðustu tíu ár hefur hún markvisst unnið að því að styrkjast, og nú er hún tilbúin til að segja sannleikann um líf sitt í vændi.
Athugasemdir