Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs, Gunnlaugssonar, stefndi föður sínum árið 2006 vegna deilna um arf sem hún taldi sig eiga rétt á. Samkvæmt upplýsingum um málið úr málaskrá Héraðsdóms Reykjavíkur var mál Önnu Sigurlaugar gegn Páli Samúelssyni þingfest í desember árið 2006. Í kjölfarið fékk Páll frest til að skila greinargerð í málinu sem hann og gerði. Málinu var úthlutað til héraðsdómarans Hervarar Þorvaldsdóttur. Málið var svo fellt niður sumarið 2007 án þess að gerð væri dómsátt og var engin formleg meðferð í málinu umfram það sem hér segir. Í kjölfar þessa fékk Anna Sigurlaug fyrirframgreidda arfinn frá föður sínum og enduðu þessir fjármunir í skattaskjólinu Bresku Jómfrúareyjum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í úttekt Stundarinnar á máli Wintris Inc., eignarhaldsfélagi Önnu Sigurlaugar á Bresku Jómfrúareyjum, sem hún greindi sjálf frá á Facebook-síðu sinni eftir að blaðamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson spurninga um félagið. Staðfestingin á dómsmálinu frá Héraðsdómi Reykjavíkur er sú fyrsta opinbera sem birtist í íslenskum fjölmiðli og benda tímasetningarnar í því máli til að Anna Sigurlaug hafi fengið peningana sem svo enduðu á Tortóla um mitt ár 2007.
Í úttekt Stundarinnar er einnig viðtal við sænska skattalögfræðinginn Torsten Fensby, sem er einn helsti sérfræðingur Evrópu í skattaparadísum, og segist hann aldrei hafa vitað til þess að forsætisráðherra í evrópsku lýðræðisríki tengist eignarhaldi á fé í skattaskjóli. „Ég hef aldrei heyrt talað um slíkt dæmi um forsætisráðherra fyrr í reynd.“
Úttekt Stundarinnar geta áskrifendur lesið hér.
Athugasemdir