Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, mætti á fund bæjarráðs í gær til þess að gera grein fyrir stöðu mála er varða kísilmálmverksmiðju United Silicon. Líkt og Stundin hefur ítarlega greint frá er stór hluti bæjarbúa ósáttur við mengun sem hefur borist frá verksmiðjunni undanfarnar vikur og hafa þeir meðal annars lýst þessum áhyggjum sínum í viðtali við fjölmiðla.
Samkvæmt fundargerð bæjarráðs var samþykkt að halda íbúafund í Hljómahöllinni þann 14. desember klukkan 20:00.
Á fundinum mun íbúum í fyrsta skipti gefast tækifæri til þess að ræða beint við talsmenn United Silicon sem hafa fram að þessu látið sér nægja að senda út yfirlýsingar öðru hvoru. En talsmenn United Silicon verða ekki þeir einu sem koma til með að sitja fundinn því samkvæmt viðburðarauglýsingu á Facebook munu fulltrúar frá Orkurannsóknum Keilis, Umhverfisstofnun og bæjarstórn Reykjanesbæjar sitja fundinn.
„Pallborðsumræður og fyrirspurnir úr sal. Ekki er hægt að tilgreina nákvæmlega um fundarlok vegna umræðna,“ segir í auglýsingunni.
Undirskriftum fjölgar
Búist er við því að íbúar vilji svör um matsskýrslu United Silicon, þar sem meðal annars var lagt fram loftdreifilíkan sem enginn vill kannast við að hafa búið til. Sama loftdreifilíkan er lagt til grundvallar staðsetningum á loftgæðismælum í kring um verksmiðjuna. Þá má einnig búast við því að spurt verði um útlit og stærð verksmiðjunnar en töluverð frávik eru í matsskýrslunni og því sem fyrir augum ber í Helguvík.
3.436 hafa skrifað undir áskorun sem beint er að bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ og Umhverfisstofnun. Þar er skorað á bæjaryfirvöld að rifta samningum við Thorsil vegna fyrirhugaðrar byggingar kísilmálmverksmiðju í Helguvík: „Forsendur til þess eru fyrir hendi þar sem Thorsil hefur ekki staðið skil á þeim gjöldum sem fyrirtækið átti að greiða fyrir tveimur árum.“
Mikil mengun, vinnuslys og bágar aðstæður
Þá segir einnig að bæjarbúar hafi upplifað það á eigin skinni undanfarið hvernig það er að búa í nálægð við stóriðju, eftir að kísilmálmverksmiðja United Silicon tók til starfa.
„Margir íbúar Reykjanesbæjar eru ekki sáttir við það hlutskipti og kvíða framhaldinu vegna áforma um fjölgun brennsluofna og meiri stóriðju í Helguvík. Heilsa og velferð bæjarbúa verður að vera í fyrirrúmi.“
Stundin greindi frá því á miðvikudaginn að starfsmenn United Silicon hafi kvartað undan bágum vinnuaðstæðum en einn þeirra fékk rafstuð í verksmiðjunni á þriðjudaginn og þurfti að leita aðhlynningar á sjúkrahús. Þá var einnig birt myndskeið sem Stundinni barst frá starfsmanni United Silicon en það þótti sýna mistök og mikla mengun sem berst frá verksmiðjunni.
Athugasemdir