Stjórnarformaður Auðkennis ehf. og framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála er annar af tveimur eigendum félagsins Xyzeta ehf. sem keypti fyrirtækið Vörukaup af Lindarhvoli ehf. fyrir jól. Á meðal annarra sem keypt hafa stöðugleikaeignir ríkissjóðs af Lindarhvoli eru BLM fjárfestingar ehf., dótturfélag vogunarsjóðsins Burlington Loan Management, verslunarkeðjan Hagar og fjárfestingarsjóðurinn SC Lowy Primary Investments sem er skráður á Cayman-eyjum.
Einkahlutafélagið Lindarhvoll var sett á fót í fyrra til að annast umsýslu, fullnustu og sölu þeirra eigna sem runnu ríkissjóði í skaut eftir að kröfuhafar fallinna viðskiptabanka og sparisjóða reiddu fram svonefnd stöðugleikaframlög. Eignirnar eru seldar í opnu söluferli en í ljósi þess að Lindarhvoll er einkaaðili lýtur félagið ekki stjórnsýslulögum ólíkt því sem venjulega tíðkast þegar höndlað er með eignir ríkissjóðs. Þannig tekur t.d. eftirlitshlutverk umboðsmanns Alþingis ekki til starfsemi félagsins.
Umdeild kaup vogunarsjóðs
Lindarhvoll seldi fjárfestum hlut ríkissjóðs í fasteignafélaginu Reitum síðasta sumar og hlut í Sjóvá í lok september. Þann 29. september auglýsti Lindarhvoll hluti ríkisins í Glitni Holdco ehf., Klakka ehf. og Gamla Byr Eignarhaldsfélagi ehf. til sölu í opnu söluferli.
Hæsta tilboðið og jafnframt það eina í Glitni Holdco ehf. átti SC Lowy Primary Investments Ltd., fjárfestingarsjóður sem skráður er á Cayman-eyjum. Engin tilboð bárust í Gamla Byr Eignarhaldsfélag ehf en BLM fjárfestingar ehf áttu hæsta tilboðið í Klakka. Félagið er í eigu vogunarsjóðsins Burlington Loan Management sem var stærsti kröfuhafi bankanna á árunum eftir hrun. Klakki er móðurfélag fjármálafyrirtækisins Lýsingar og komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu þann 27. janúar síðastliðinn að vogunarsjóðurinn væri hæfur til eiga Lýsingu í gegnum Klakka.
Salan á Klakka gagnrýnd
Sigurður Valtýsson, forsvarsmaður félagsins Frigus II ehf., gagnrýndi harðlega vinnubrögðin við söluna á hlut ríkisins í Klakka í byrjun desember. Í grein eftir hann sem birtist í Viðskiptablaðinu undir yfirskriftinni „Afleit vinnubrögð við sölu ríkiseignar“ er fullyrt að BLM fjárfestingar ehf. hafi haft meiri upplýsingar um fjárhagsstöðu Klakka en aðrir bjóðendur. Þá er stjórn Lindarhvols ehf. spurð hvort hún telji það „samræmast reglum stjórnsýslulaga að veita ekki upplýsingar á útboðstímanum, svara ekki andmælum með rökstuddum hætti vegna málsmeðferðar og ákvörðunar og gæta ekki að hæfi þess sem fer með framkvæmdavald ríkisfyrirtækisins Lindarhvols ehf“.
Athugasemdir