Í opnu bréfi sem 33 bandarískir geðlæknar, sálfræðingar og félagsráðgjafar skrifuðu er varað við því að andlegt ástand Donalds Trump, forseta landsins, sé þannig að hann sé „ófær að gegna embætti forseta á öruggan máta“. Sögðu sérfræðingarnir að hegðun Trumps og orðanotkun „bendi til þess að hann sé ófær um að finna til samkenndar með fólki.“
Í bréfinu, sem séfræðingarnir sendu til New York Times, kemur einnig fram að sú hegðun forsetans að „bjaga raunveruleikann“ til þess að hann komi heim og saman við „goðsagnakenndar hugmyndir hans um eigin mikilfengleik“, auk tilhneigingar til þess að ráðast á þá sem andmæla honum með staðreyndum, sé líkleg til þess að magnast upp eftir að hann tekur við völdum.
Ástæðan fyrir því að sérfræðingarnir hafa ekki tjáð sig fyrr er sögð vera hluti af siðareglum samtaka geðlækna í Bandaríkjunum, hin svokallaða Goldwater-regla. Þar er hvatt til þess að geðlæknar gefi ekki faglegt álit sitt á opinberum einstaklingi sem þeir hafa ekki rannsakað persónulega.
Athugasemdir