Ég átti skemmtilegt augnablik í sturtu nýlega. Eins og flestir nota ég tækifærið í sturtunni til að syngja og þessi sturtuferð var ekkert frábrugðin. Nema að þessu sinni tók ég eftir dularfullu eðlisfræðilegu fyrirbæri: Þegar ég söng orðið „hljóp“ í línunni „Því ég hljóp svo hratt að ég hrasaði og datt“ þá var eins og sturtuklefinn minn ómaði sérstaklega mikið með nótunni. Önnur orð í textanum, sem voru í sömu nótu, ómuðu líka jafn kröftuglega. Nú efa ég að sturtuklefinn minn sé einhver sérstakur aðdáandi Villa Vill (þótt hann ætti að vera það. Villi er þjóðargersemi) og hafði frekar grun um að einhver spennandi og stórfengleg útskýring lægi þarna að baki. Eðlisfræðileg útskýring.
Ég fór því á stúfana og viti menn, ég hef nú uppgötvað fyrirbæri sem á ensku kallast „resonance frequency“ eða á íslensku meðsveiflunartíðni (Ó, íslenska! Hversu erfitt það er að þýða yfir á þig án þess að allt verði klunnalegt). Í grófum dráttum má segja að hvert eitt og einasta efni eigi sér sína meðsveiflunartíðni. Í tilfelli sturtuklefans míns virðist steinsteypan sem hann skapar hafa meðsveiflunartíðni sem samsvarar gróflega nótunni fís, eða F#. Þetta þýðir að í hvert sinn sem ég syng nótuna fís í sturtuklefanum mínum þá byrja sameindirnar í steypunni að syngja og dansa með nótunni eins og fyrir töfra.
Það er í raun eins og sturtuklefinn minn eigi sér sína uppáhalds nótu, nótu sem hefur svo sterk áhrif á hann að í hvert sinn sem hann heyrir hana þá stenst hann ekki mátið að dilla sér og víbra með mér. Eins og frændi á ættarmóti sem er þurr og þögull þangað til hann fær bjór og einhver setur Rolling Stones á fóninn, og þá sturlast hann af gleði og byrjar að dansa og syngja og brosa og maður trúir varla að þessi bældi frændi að norðan eigi sér svona djúpstætt og vel dulið sálarlíf sem aðeins Rolling Stones og smá bjór geta gert sýnilegt.
(Ég veit að þið eruð að lesa grein í Stundinni. Bíðið þið róleg, ég er aaaalveg að fara að drulla yfir ríkisstjórnina!)
En þannig er þetta. Allir eiga sér einhverja nótu sem lætur okkur syngja með þegar við heyrum hana. Ef það er ekki bókstafleg nóta þá er það kvikmynd, eða ljóð, eða saumaklúbburinn þinn, eða kynlíf, eða eitthvað sérstakt útsýni (kannski í sumarbústaðnum þínum): Aðstæðurnar sem gera allt allt í lagi, aðstæðurnar sem næra okkur og gera okkur að betra og jafnvel andlegra fólki með því að tala til okkar á hátt sem verður seint útskýrður, eins og fyrir töfra.
Ég nefni þetta hér af þeirri einföldu ástæðu að ég trúi því mjög einlægt að samfélag mannanna eigi sér líka eins konar meðsveiflunartíðni sem við eigum eftir að uppgötva. Við mannfólkið erum eins og steinsteypu-eindir í sturtuklefanum mínum og um leið og við getum fundið þjóðfélagsstrúktúr sem raunverulega hentar okkur öllum—ekki bara eina prósentinu, eða Sjálfstæðismönnum eða vinstri fólkinu eða femínistum eða Gillznegger, heldur öllum sem eru manneskjur með vonir og væntingar og þrár – þá munum við syngja og dansa og víbra saman á hátt sem mun gera hugtök á borð við kapítalisma og kommúnisma úrelt! Ég held að þetta sé ekkert endilega að fara að gerast á næsta árinu, en þegar það gerist verðum við hamingjusöm og óþekkjanleg okkar nútíma-sjálfum.
Þetta er eins og einn þekktur trúarheimspekingur sagði eitt sinn: „Það eru engar pólitískar lausnir, aðeins tæknilegar útfærslur. Afgangurinn er áróður.“ Ég hef haft þessa tilvitnun eftir við fólk sem er bæði mjög vinstri sinnað og mjög hægri sinnað og þeim finnst öllum þetta vera mjög heimskuleg tilvitnun, svo ég held að það hljóti að vera mikill sannleikur fólginn í henni! Vandamálið er hins vegar að á meðan fólk rígheldur í hugmyndafræðina sína í stað þess að leyfa sér að sjá það sem það getur séð þá erum við takmörkuð. Takmörkuð af þrasi og ásökunum og flokkspólitík. Þetta er allt glatað og ég bíð þess að einn daginn getum við sungið saman eins og ég og sturtuklefinn minn, eins og fyrir töfra.
Athugasemdir