“Orð
ég segi alltaf færri og færri orð
enda hafði ég lengi á þeim illan bifur.“
-Sigfús Daðason, Hendur og orð, 1959
Hugsun fæðist ekki í orðum. Hún fæðist sem tilfinning sem við þýðum yfir í orð til að átta okkur. Til þess að geta sýnt öðrum hugsanirnar okkar. Við erum svöng. Reið. Stundum ástfangin. Stundum eitthvað flóknara.
Ég hef ekki alltaf stjórn á hugsunum mínum. Kvíði, hroki og reiði setjast stundum að í höfðinu á mér, neita að borga leigu og halda ömurlegar samkomur. Lengi vel var ég gjörsamlega vanmáttugur gagnvart þessum stjórnlausu boðflennum.
Í mörg ár glímdi ég einnig við andlegan sjúkdóm. Hugsanir mínar eitruðu fyrir mér. Fóru eins og þeytivinda um höfuðið. Orsökin var ójafnvægi í efnabúskap heilans, en ég sá það ekki. Þetta voru bara staðreyndir. Ég trúði þeim: Þú ert aumingi. Munt aldrei gera neitt af viti. Af hverju að reyna? Þú veist þú munt gefast upp. Að lokum fór eina lausnin sem mér datt í hug við þessu ástandi að hljóma. Hærra og hærra. Dreptu þig. Dreptu þig. Dreptu þig.
Set kaffibollann í vélina í vinnunni og vel stóra og sterka uppáhellingu. Maskínan murrar og malar. Titrar svo meðan ljósbrúnn vökvinn gubbast úr henni. Gufan stígur krulluð upp úr bollanum og hverfur. Þegar stórir dropar falla í yfirborðið úðast einn og einn upp úr. Lyktin af nýmöluðum baununum að blandast sjóðandi vatninu kitlar þau fáu bifhár sem ég hef ekki borað úr nefinu á mér.
Seinna í sama kvæði segir Sigfús:
„Hvað sem öðru líður vil ég biðja menn
að fara varlega með orð
þau geta sprungið
og þó er hitt öllu hættulegra
að það getur vöknað í púðrinu.“
Ég passa mig að míga í púðrið á hverjum degi. Hugsa og segi færri og færri orð. Enda hafði ég lengi á þeim illan bifur.
Athugasemdir