Hlín Einarsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Bleikt.is, sem var handtekin fyrir að senda Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra fjárkúgunarbréf, hyggst nota tölvupósta sína frá Vefpressunni í þeim málaferlum sem framundan eru vegna fjárkúgunarmálsins og einnig nauðgunarkæru hennar á hendur fyrrverandi samstarfsmanni. Henni er hins vegar meinað um aðgang að póstunum af eigendum og stjórnendum fyrirtækisins sem er að stærstum hluta í eigu fyrrverandi sambýlismanns hennar til þriggja ára, Björns Inga Hrafnssonar.
Hlín hefur ekki tjáð sig um málið frá því það kom upp fyrr en nú.
Segir dularfullt að hún fái ekki tölvupóstana
Eftir að fjárkúgunin, sem gekk út á óeðlileg tengsl forsætisráðherra og Björns Inga, komst í hámæli, lokuðu stjórnendur Pressunnar á netfang Hlínar. Hún segist hafa haft þetta netfang, hlin@bleikt.is, allar götur síðan hún var ritstjóri Bleikt.is, sem er einn af miðlum Vefpressunnar. Hlín sagði í samtali við Stundina í kvöld að hún teldi sig eiga fullan rétt á þessum gögnum sem að stórum hluta eru persónuleg.
„Það er mjög dularfullt að þeir skuli neita að afhenda mér gögnin“
„Ég krefst þess að fá aðgang að tölvupósti mínum en stjórnendur Vefpressunnar eru að draga lappirnar. Það er mjög dularfullt að þeir skuli neita að afhenda mér gögnin,” segir Hlín.
Athugasemdir