Myndir af handtöku Hlínar Einarsdóttur í tengslum við fjárkúgunarmál á hendur Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra eru birtar í Stundinni í dag. Á myndunum sést þegar svartur bíll kemur með tösku og skilur eftir á tilteknum stað eftir fyrirmælum Hlínar sem hafði hótað að birta upplýsingar sem tengja Sigmund Davíð við fjármögnun Pressunar sem er í eigu Björns Inga Hrafnssonar, fyrrverandi sambýlismanns hennar. Á öðrum myndum sést Hlín á flótta undan sérsveitarmönnum sem yfirbuguðu hana skömmu síðar. þetta gerðist 29. maí síðastliðinn. Málið vakti þjóðarathygli.
Ítarlegt viðtal er við Malín Brand í Stundinni í dag þar sem hún lýsir atburðarásinni sem endaði með handtöku þeirra systra. Þá eru birt dagbókarbrot Malínar vegan málsins.
Hér er gripið ofan í frásögnina þar sem Hlín er lögð af stað til að sækja peningana.
Malín ákvað að nota tímann á meðan hún beið til þess að taka myndir í nágrenninu. Hún tók myndavélina sína og fór upp á hæð í grenndinni. Svo fór hún að mynda fjallahringinn í tærri vorbirtunni. Þarna var Keilir og Helgafell í Hafnarfirði. Hún gleymdi sér um tíma við að mynda. Skyndilega hringdi farsíminn hennar. Hún leit á skjáinn. Þetta var Hlín. „Í símanum var systir mín, lafmóð og á barmi taugaáfalls. Hún var tæplega kílómeters fjarlægð frá mér en ég gat ómögulega komið auga á hana í hraunbreiðunni. Hún sagðist vera að nálgast fiskitrönurnar. „Malla, ég vil endilega tala við þig á meðan svo ég fari ekki yfir um,“ sagði hún.
Athugasemdir