Eignarhaldsfélag Gunnlaugs Sigmundssonar, föður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, greiddi tæplega 354 milljóna króna arð til hluthafa sinna árið 2009 þegar eignarhald fyrirtækisins var í gegnum þrjú fyrirtæki í skattaskjólinu Tortólu. Fyrirtæki Gunnlaugs í Lúxemborg, GSSG Holding S.A., hagnaðist um tæplega 187 milljónir króna árið 2009 og hafði hagnast um rúmlega 80 milljónir króna árið á undan. Hluti hagnaðarins kom frá viðskiptum sem GSSG Holding ehf. stundaði á Íslandi í gengum fjárfestingarfélagið Teton ehf. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins í Lúxemborg sem Stundin hefur undir höndum.
Þetta þýðir að stór hluti núverandi og tilvonandi eigna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er annað hvort vistaður í félögum á Tortólu eða hefur farið í gegnum félög á Tortólu. Félag eiginkonu Sigmundar Davíðs, Wintris Inc., vistar eignir upp á áætlaðar 1.200 milljónir króna og var þetta félag í helmingseigu Sigmundar Davíðs þar til í árslok 2009 eins og komið hefur fram í fram í umfjöllun Reykjavík Media ehf. og alþjóðlegu blaðamannasamtakanna ICIJ um Wintris-málið.
Stundin gerði ítrekaðar tilraunir til að ná tali af Gunnlaugi Sigmundssyni vegna málsins en án árangurs. Tekið skal fram að viðskipti fyrirtækis hans voru samkvæmt gildandi lögum í Lúxemborg á þessum tíma.
Hefði þurft að greiða um 70 milljónir í skatt
Ef Gunnlaugur hefði haldið eignunum sem voru inni í GSSG Holding S.A. í íslensku fyrirtæki hefði það fyrirtæki þurft að greiða fyrirtækjaskatta af tekjum fyrirtækisins upp á 20 prósent auk þess sem skattar á arðgreiðslur nema 20 prósentum. Peningarnir sem fyrirtækið hafði til að greiða í arð hefðu því ekki verið eins miklir á Íslandi og í Lúxemborg vegna þeirra fyrirtækjaskatta sem greiddir eru á Íslandi.
Athugasemdir