Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, fordæmir bréf stjórnarandstöðunnar til forystu Evrópusambandsins í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir bréfið fela í sér margar rangfærslur, meðal annars að þingsályktunartillagan um aðildarumsókn að Evrópusambandinu hafi einhvers konar lagagildi sem ríkisstjórn sé óheimilt að víkja frá. „Ekkert er fjær sanni. Þessi ályktun var samþykkt að frumkvæði þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat og fól í sér pólitíska stuðningsyfirlýsingu við þau áform hennar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Áhrif ályktunarinnar voru því fyrst og fremst pólitísks eðlis en ekki lagalegs,“ skrifar Gunnar Bragi meðal annars.
Hann segir núverandi ríkisstjórn því ekki knúna til að fylgja eftir þeim ályktunum sem fyrri ríkisstjórn fékk samþykktar. „Það er tímabært að fulltrúar minnihlutans átti sig á þessum leikreglum lýðræðisins og virði þær í stað þess að slá ryki í augu almennings og alþjóðastofnunar á þann hátt sem bréf þeirra er til marks um,“ segir hann.
Athugasemdir