Fjallað er um gömul ummæli Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings í Morgunblaðinu í dag, sem frídreift er á heimili landsmanna. Í frétt á fyrstu opnu blaðsins og í nafnlausa skoðanadálknum Staksteinum er greint frá því að Guðni hafi notað orðalagið „fávís lýðurinn“ í fyrirlestri um Þorskastríðin árið 2013 í Háskólanum á Bifröst í Borgarfirði og afneitað síðan orðunum í sjónvarpskappræðum með Davíð Oddssyni, ritstjóra blaðsins og nú forsetaframbjóðanda.
„Rangar“ sameiginlegar minningar
Ummæli Guðna sem um ræðir snúa að því að goðsagnir myndist meðal þjóða um afrek þeirra, knúnar áfram af þjóðernishyggju, sem ekki séu endilega réttmætar eða spegli raunverulega atburðarás.
„... Jess, Íslandi allt og spurningin vaknar: Er fávís lýðurinn aftur að pródúsera „rangar“ sameiginlegar minningar? Og kemur enn til kasta okkar sagnfræðinganna því því er ekki að leyna í okkar hópi eru þeir til, og kannski er ég þar framarlega þó ég segi sjálfur frá, sem hafa lýst efasemdum um þessa sýn en vissulega aðrir tekið í sama streng.“
Orðin eru hluti af fyrirlestri Guðna fyrir nemendur á Bifröst. Mbl.is birti í gær upptöku af ummælunum.
Í sjónvarpskappræðum í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2, sem stýrt er af Birni Inga Hrafnssyni, eiganda Vefpressunnar, sótti Davíð harkalega að Guðna, meðal annars vegna Icesave-málsins. Guðni kannaðist ekki við að hafa talað um „fávísan lýð“ þegar hann var spurður út í það í þættinum og neitaði því endurtekið.
Langt seilst, segir Guðni
Sama frétt og er birt í frídreifðu eintaki Morgunblaðsins var hins vegar sögð í hádeginu í gær á Vísi.is. Þar útskýrir Guðni málið með þeim hætti að hann meini ekki með eiginlegum hætti að fólk sé fávíst: „Ég var að tala um það að stundum hættir fræðimönnum til að kvarta undan því að fólk taki ekki undir með þeim og notaði þessa lýsingu en það er svo fjarri mér, eins og ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að sjá, að ég hafi þar með verið að segja Íslendinga fávísan lýð. Ég hef líka talað um fræðimenn í fílabeinsturni. Þetta eru bara myndlíkingar og langt seilst að bera það upp á mig að mér þyki Íslendingar vera fávís lýður. Ég bara skil ekki svona háttalag,“ segir Guðni.
Hann sagði að sjá þyrfti fyrirlesturinn í samhengi til að skilja orðin á réttan hátt.
„Allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að ég var ekki að væna Íslendinga um að vera fávísir heldur var ég að tala um það að það getur verið erfitt fyrir þá sem eru í fræðarannsóknum að kynna sínar niðurstöður fyrir almenningi þannig að fólki líki. Það er alltaf smá bil þarna á milli en ég trúi ekki að fólk taki svona orðalagi bókstaflega. Ég hvet fólk til að hlusta á þennan fyrirlestur og lesa allt sem ég hef skrifað og þá sér fólk að það er ekki fótur fyrir því að mér finnist Íslendingar vera fávís lýður. Mér finnst ansi magnað að þetta sé orðið aðalatriði.“
Í sumarleyfi frá ritstjórn
Ekki er aðeins fjallað um orð Guðna í frétt á fyrstu opnu, heldur einnig í nafnlausa skoðanadálknum Staksteinum. Þá er hann gagnrýndur í nafnlausum leiðara blaðsins.
Frétt blaðsins um orð Guðna 2013 var birt á mbl.is í morgun, en hún var síðan fjarlægð.
Davíð Oddsson er í sumarleyfi frá starfi sínu sem ritstjóri Morgunblaðsins í baráttu sinni fyrir forsetakosningarnar en hyggst snúa strax aftur, verði hann ekki kjörinn forseti 25. júní næstkomandi.
Náin tengsl eru milli framboðs Davíðs og útgáfufélags Morgunblaðsins. Í kosningateymi eru blaðamaður Morgunblaðsins, Laufey Rún Ketilsdóttir, og stjórnarmaður í útgáfufélaginu Árvakri, Friðbjörn Orri Ketilsson. Laufey safnaði meðal annars undirskriftum fyrir framboð Davíðs á ritstjórnarskrifstofum blaðsins.
Aðrir áhrifamenn tengjast framboði Davíðs. Ari Edwald, fyrrverandi forstjóri 365 miðla, og athafna- og sjálfstæðismaðurinn Eyþór Arnalds, sitja báðir í stjórn félags sem heldur utan um framboð Davíðs. Þá er Erla Gunnlaugsdóttir, fjölmiðlafulltrúi framboðsins, dóttir fulltrúa eins helsta eiganda Árvakurs, Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar, stjórnarformanns Ísfélags Vestmannaeyja.
Athugasemdir