Þegar Guðni Th. Jóhannesson tók við sem forseti tók Ísland stórt skref í átt til nútímans. Fleiri breytingar eru yfirstandandi sem marka fráhvarf Íslands frá einföldu samfélagi yfir í flóknara og þróaðra.
Breytingin með Guðna er bæði táknræn og áþreifanleg.
Undanfarin ár hafa ráðandi stjórnmálamenn, bæði forseti og forsætisráðherra, markvisst gert sjálfa sig að aðalatriðum. Þannig höfum við fylgst með fráfarandi forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins snúa umræðunni á hvolf aftur og aftur vegna eiginhagsmuna. Umræðan hefur snúist um hvernig eitthvað sé að þjóðinni vegna umræðu um hann, hvernig víðtæk samsæri eigi sér stað gegn honum, að fjölmiðlar séu á móti honum og hvernig honum finnist eiga að fresta kosningum andstætt loforði vegna þess að honum hefur ekki tekist að klára eitt og annað.
Við höfum verið í stöðugu aðlögunarferli að persónu hans. En ekki lengur.
Þyngdarafl egóanna
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, hafði, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrirferðarmikið egó sem hann lét samfélagsumræðuna hverfast um við mörg tækifæri. Egó þeirra beggja rákust á fyrir allra augum þegar Ólafur Ragnar synjaði persónu Sigmundar um vald til að rjúfa þing, eftir óánægju almennings með siðferði hans, en Ólafur leit síðan á sjálfan sig sem nauðsynlega forsendu farsællar útkomu og afboðaði í annað skipti boðað brotthvarf sitt úr forsetastóli.
Egóin hafa þyngdarafl og því meiri massa sem þau hafa, þess frekar hverfist samfélagsumræðan um þau. Sum egó hafa svo mikið þyngdarafl vegna þess sem þau hafa sankað að sér með tímanum að þau verða svarthol og gleypa umræðu um málefni. Þau verða málefnunum yfirsterkari, egóin verða svo mikilvæg að þau helga meðölin og tilganginn þess sem er gert.
Innleiðing auðmýktar
Þegar Guðni hélt innsetningarræðu sína virtist hann nánast leggja út frá því sem upphafsforsendu að innleiða auðmýkt í forsetaembættið.
Hann þakkaði fyrir traustið sem honum hafði verið sýnt og vísaði beint til vísdóms fjöldans og fjölræðis umfram eins konar einræðis: „Það geri ég með auðmýkt í hjarta, veit að ég á margt ólært, veit að mér getur orðið á ... Ég mun og vil þiggja ráð og leiðsögn frá ykkur öllum, fólkinu í landinu.“
Í innsetningarræðu sinni árið 1996 teiknaði Ólafur Ragnar hins vegar upp mynd af þeirri „djúpu virðingu sem þjóðin ber fyrir störfum forseta“ og kvaðst vona að hann hefði áfram sterkt samband við „alþýðu manna til sjávar og sveita“.
Á meðan Sigmundur Davíð lýsti rofi á milli veruleika og skynjunar hjá kjósendum og Ólafur Ragnar lýsti sambandi sínu við landsmenn í anda konungs við þegna kallar Guðni eftir leiðsögn og dregur úr hugmyndinni um hinn óskeikula leiðtoga sem leiðir þjóð sína.
Annað ummerki þess að valdasamþjöppun og hinn óskeikuli leiðtogi sé á undanhaldi er vinsældir Pírata, sem stefnir að eins flatri valddreifingu og mögulegt er, og sú staðreynd að einn vinsælasti stjórnmálamaður síðari ára, Helgi Hrafn Gunnarsson, hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram að nýju til Alþingis og fara að tjaldabaki í að styrkja tengsl grasrótarinnar við þingflokkinn.
Óvinirnir sem taka aðra afstöðu
Samfélag er flókið net verunda og hugmynda sem tengjast og byggjast upp með tímanum á meðan sumt úreldist og hverfur. Einstaklingar tengjast hugmyndum með ýmsum hætti, en í grundvallaratriðum eru ákveðnir eiginleikar hugmyndanna sem ráða því hvort þeir séu líklegir til að tengjast þeim og verða fyrir verkun þeirra eða ekki. Markaðsfræðin og stjórnmálin snúast um að hámarka getuna til að tengja hugmyndir og persónur við einstaklingana í samfélaginu og hafa þannig áhrif á þá. Eftir því sem ein eining í netinu verður meira ráðandi, hugmyndafræðilega og/eða raunverulega, verður netið sem slíkt einfaldara og fábrotnara.
Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ólafur Ragnar Grímsson hafa gert að aðalatriði að þjóðin eigi að standa saman og minnka gagnrýna umræðu í nafni einföldunar og samþjöppunar afls og þar með valds, til að skapa eina samstæða einingu úr samfélagsnetinu.
Ólafur Ragnar vildi stefna að „varanlegri samstöðu“ þjóðarinnar vegna þess að „þjóð sem gleymir sér í hringiðu gagnrýni og ágreinings, glatar sínu sögulega minni um mátt samstöðunnar, er komin á hættulegar villigötur; þarf að rifja upp hvernig helstu burðarásar sjálfstæðis hennar, efnahagslífs og velferðar voru hertir í smiðju samstöðunnar“: „Við Íslendingar eigum líka lærdóma og leiðarljós, reynslu úr hirslum sögunnar, sem nýst geta okkur á nýrri braut, frá átakaskeiði liðinna ára til varanlegrar samheldni og samstöðu,“ sagði Ólafur.
Sigmundur Davíð gekk ennþá lengra en Ólafur Ragnar og lýsti því í fyrstu stefnuræðu sinni haustið 2013 hvernig þeir sem ekki féllu að móti samstöðunnar með þjóðinni, og þá honum, væru í raun óvinir á meðal vor: „En þeir eru til sem hafa ekki trú á Íslandi, þeir sem ala á sundrung og þeir sem aðhyllast öfgakennda hugmyndafræði og líta á hvern þann vanda sem upp kemur í samfélaginu fyrst og fremst sem tækifæri til að innleiða þær öfgar ... látum ekki sundrung og niðurrifsöfl draga úr okkur þrótt.“
Eftir að egó Sigmundar var tekið út úr jöfnunni breyttust aðstæður hins vegar með þeim hætti að meiri vinnufriður skapaðist á Alþingi, en hann er ekki hættur að reyna.
Davíð Oddsson gagnrýndi hins vegar Guðna fyrir að ýta ekki undir goðsagnir um samstöðu þjóðarinnar í kosningabaráttunni, vegna þess að Guðni hefði greint flóknari aðstæður heldur en hinn samstæða samtakamátt þjóðarinnar, sem samkvæmt goðsögninni átti að hafa stuðlað að sigri Íslands í þorskastríðinu. „Það eru heilmargir menn í því að tala okkur niður,“ sagði Davíð og vísaði á Guðna. Hann taldi sjálfan sig vera sterka leiðtogann sem þjóðin þyrfti á vaktina, en að Guðni hefði í reynd ofurselt sig erlendri ógn með stuðningi við samningaleiðina í Icesave-málinu og vanvilja til að ýta undir sögulegar goðsagnir um íslensku þjóðina.
Hið einfalda, samþjappaða vald
Hámark samheldni og samstöðu er fasismi. Goðsagnir eru lykilatriði í fasismanum, en að sjálfsögðu ekki nægileg forsenda fasisma, enda er ekki og hefur ekki verið fasismi ríkjandi á Íslandi, þar sem bein valdbeiting hefur ekki átt sér stað með sama hætti og í fasisma og þrátt fyrir töluverða innrætingu og tilraunir hefur persónudýrkun ekki náð nægilegri útbreiðslu og ákefð til að fullnægja hugmyndafræðilegum skilyrðum fasisma. Mikilvægi leiðtogans hefur hins vegar verið undirliggjandi þema í málflutningi fylgismanna egóista íslenskra stjórnmála. Með því að færa okkur frá hugmyndafræði egóismans, leiðtogahyggju og samþjöppuðum stjórnmálaöflum, erum við hins vegar að fjarlægjast fasíska eiginleika og nálgast fjölræðissamfélag og flóknari umræðu sem snýr að hugmyndum en ekki persónum.
Vegna virkni heilans er auðveldara að selja persónur heldur en hugmyndir. Auðveldara er að búa til tengsl við persónur og framkalla rakalausan stuðning.
Í Norður-Kóreu hefur tekist að framkalla einstaka samstöðu, sem er oft afskræmd í umræðunni á Vesturlöndum, þar sem henni er lýst sem einfaldri ógnarstjórn. Það sem skiptir máli fyrir samanburðinn er hvernig samstaðan í Norður-Kóreu er nærð og hvernig hún er nýtt. Hugmyndafræðilega er henni mikið til viðhaldið með tvennu: Að vísa til utanaðkomandi ógnar og svo að vísa til sérstöðu og sérstakrar getu norður-kóresku þjóðarinnar, sem holdgervist í leiðtoga hennar. Síðan er framkallaður hópþrýstingur gegn gagnrýni og þeim umbunað með tækifærum og efnislegum hlutum sem styðja flokkinn, leiðtogann, og þar með þjóð sína. Skilyrðingin er ekki síst jákvæð og ofbeldi þarf sjaldnast að beita til að viðhalda hóphugsuninni.
Flókið fjölræði
Þeir sem falla ekki að steríótýpu Íslendings, genetískt, kynferðislega eða á annan hátt, grafa að mörgu leyti undan hugmyndafræði þjóðernissinnaðra hóphugsunarsinna, þar sem einsleitni er gjarnan ein af forsendum goðsagnanna um mikilfenglegan uppruna þjóðarinnar og samtakamáttarins.
Guðni Th. Jóhannesson hóf forsetaferil sinn á því að beina athyglinni sérstaklega að þeim hópum sem hafa helst verið jaðarsettir á Íslandi í gegnum árin fyrir að vera öðruvísi. Fyrsta heimsókn hans var á Sólheima í Grímsnesi. Næsta opinbera framkoma hans var á Gay Pride – Hinsegin dögum – þar sem hann tók sér opinberlega stöðu með baráttu samkynhneigðra og transfólks, fyrstur forseta, og óskaði meira að segja eftir samkynhneigðum leikmanni í karlalandsliðið í knattspyrnu. Forveri hans, Ólafur Ragnar, hafði hafnað því hins vegar í þrígang að koma opinberlega fram á Gay Pride til stuðnings málstaðnum.
Íslenskt samfélag og meðlimir þess hafa ekki og munu ekki ná mestum árangri með því að treysta á nauðsynlega leiðtoga, oftast eldri karlmanna, og ná fram varanlegri samstöðu einsleits hóps sem kom af víkingum. Það er bara einföldun sem er auðvelt að selja og gera út á til að öðlast vald yfir fólki.
Athugasemdir