Hver er munurinn á Guðna Th. Jóhannessyni og Ólafi Ragnari Grímssyni?
Helgi fokking Björns.
Það er auðvitað léttúðug einföldun, en í henni er samt kjarni sannleiks um breytinguna sem hefur orðið á bæði yfirbragði og inntaki embættis forseta Íslands eftir síðustu kosningar.
Stephan G. eða Bragi Valdimar?
Helgi fokking Björns hefur alveg áreiðanlega verið grunlaus um að popptexti hans ætti eftir að rata inn í ávarp forseta Íslands. Og ekki bara eitthvert ávarp, heldur sjálft fyrsta áramótaávarpið:
Vertu þú sjálfur, gerðu það sem þú vilt.
Vertu þú sjálfur, eins og þú ert.
Láttu það flakka, dansaðu í vindinum.
Faðmaðu heiminn, elskaðu.
Helgi hefði líklega vandað kveðskapinn ögn betur hefði hann vitað af hinni óvæntu forfrömun hans, og þó. Það eru einmitt óformlegheitin og hispursleysið í textanum sem létu hann smellpassa inn í ávarpið, beint í kjölfarið á vísu eftir Bjarna Thorarensen amtmann, það arma mærðarskáld.
Lokið nú augunum eitt andartak og reynið að ímynda ykkur hvernig þessi texti Helga gæti hljómað úr munni Ólafs Ragnars Grímssonar.
Ekki?
Nei, auðvitað ekki.
Þetta er ekki sagt Ólafi Ragnari til hnjóðs, heldur til að draga fram þá augljósu staðreynd að Guðni Th. er ekki Ólafur Ragnar – né heldur öfugt.
Einkennislag kosningabaráttu Ólafs Ragnars árið 1996 var ´Sjá dagar koma´ eftir Davíð Stefánsson, þar sem aldalöngum þrautum Íslendinga er lýst og niðurstaðan er að líf og tilvist þjóðarinnar sé ekkert minna en eilíft kraftaverk.
Annar texti fylgdi forsetatíð Ólafs Ragnars mjög sterkt, ´Þótt þú langförull legðir´ eftir Stephan G. Stephansson. Það er annar rómantískur texti um hvernig landið og náttúruöflin hafa mótað þjóðarsálina.
Ef þið nennið ekki að fletta textanum upp getið þið ímyndað ykkur ´Ísland er land þitt´ með talsvert eldra orðalagi. Í kvæðinu eru Íslendingar semsagt:
frænka eldfjalls og íshafs,
sifji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós,
sonur landvers og skers!
Athugasemdir