Albanski fjölskyldufaðirinn Pëllumb Ndoka var vægast sagt himinlifandi þegar Stundin náði tali af honum í dag. Réttar sagt er Pëllumb nú orðin Íslendingur enda fékk hann og fjölskylda hans ríkisborgararétt síðastliðinn laugardag.
Pëllumb og fjölskyldu hans var vísað úr landi í skjóli nætur fyrr í mánuðinum eftir ákvörðun Útlendingastofnunar. Pëllumb hafði sótt um hæli á Íslandi vegna hótanna sem honum hafði borist vegna skilnaðar sem og vegna veikinda sonar hans, Arjan, sem er ársgamall og fæddist með opna fósturæð og op á milli hjartagátta. Alþingi tók ákvörðun um að veita fjölskyldu hans ríkisborgararétt eftir hörð viðbrögð almennings vegna brottvísunarinnar.
„Ó, já, ég er mjög glaður. Íslenska þjóðin bjargaði lífi stráksins míns. Ég veit ekki hvað ég á að gera til að þakka þjóðinni. Ég ætla að gera eitthvað mjög mikið fyrir landið. Um leið og kem ætla ég að finna starf, undireins. Ég vil vinna, ég nenni ekki að hanga heima,“ segir Pëllumb. Hann segist tilbúinn og viðbúinn að koma til Íslands sem fyrst.
„Íslenska þjóðin bjargaði lífi stráksins míns.“
Hann er þó ekki viss hvenær hann komi. „Ég veit það ekki, það hefur enginn haft samband við mig og sagt mér hvenær ég megi koma. Ég get komið hvenær sem er. Bara þegar þið viljið að ég komi, þegar þið eruð tilbúin. Ég hefði helst viljað koma sem fyrst þar sem sonur minn þyrfti að fara í læknisskoðun,“ segir Pëllumb.
Athugasemdir